laugardagur, 2. maí 2009

Ferðalög - Bergerac, Sarlat, o.fl. (seinni hluti)

Seinni helgi ferðalagsins um Suðvestur Frakkland kom mjög skemmtilega á óvart. Einsog ég hafði kviðið fyrir henni! Ég tók lestina frá Bordeaux til Bergerac, sem tók uþb. eina klst. og á áfangastað spurðist ég fyrir um hótelið sem ég skyldi gista á um nóttina. Þangað gekk ég svo með allan farangurinn og kom honum fyrir inni á herbergi. Til að nýta tímann ákvað ég að ganga um miðbæinn í sólinni, á meðan ég velti vöngum yfir því hvernig þessi helgi ætti eiginlega eftir að verða. Ég áttaði mig nefnilega á einu: Ég hafði aldrei nokkurn tímann verið einn með Melanie! Áður var það alltaf ég, Melanie og Paul.

Ég gat að litlu leyti meðtekið það sem var að sjá í bænum vegna þessa klandurs sem ég hafði komið mér í. Og það versta var að það var að öllu mér að kenna. Upphaflega var skipulagt að ég og Melanie skyldum heimsækja Paul helgina 24. apríl, en síðan kom það upp á að Paul þurfti að vera á Írlandi nákvæmlega þessa helgi. Melanie hafði þá keypt miðana og vildi alls ekki breyta þeim þar sem að hún þyrfti að borga heiftarlega í refsikostnað. Til að gera langa sögu stutta, þá kom það í minn hlut að ákveða hvort hún skyldi breyta miðanum sínum og heimsækja Paul á sama tíma og ég, eða verja helginni bara með mér og ferðast eitthvað um svæðið. Ég held að það sé nokkuð ljóst hvað úr varð!

Cyrano de Bergerac

Þegar Melanie kom sátumst við við sundlaugarbakkann á hótelinu og skipulögðum gróflega helgina. Sólin skein og hitinn var steikjandi, en það var bannað að fara í laugina. Eftir það gerðum við langan túr um bæinn og átum þar og drukkum á yndislegu torgi með útsýni yfir styttu af hinum ódauðlega Cyrano de Bergerac. Kvöldið sjálft endaði í nokkurs konar skyndistormi þar sem starfsfólk veitingastaðarins þurfti að planta sér víðsvegar um útitjöldin og halda þeim niðri svo að þau færu ekki á flug.

Starfsfólkið stendur yfir síðasta parinu við snæðing

Næsti dagur tók á móti okkur með rigninardembu og hálfgerðum hrolli. Þá var að grípa í „plan b“ og við héldum í hellaleiðangur. Grotte de Pech Merle varð fyrir valinu. Þetta er gríðarstór hellir sem tók okkur heilan klukkutíma að ganga um. Um hann allan er fjöldinn af málverkum, 16 - 25 þúsund ára gömlum.

Síðan áður en ferðinni lauk keyrðum við um ýmsa bæi, kastala og virki. Þar stendur hæst bærinn Sarlat og Forteresse de Beynac. Sarlat er miðaldabær með 10 þúsund íbúa sem hefur haldið sér nánast eins í gegnum aldirnar. Það er einsog að fara aftur í tímann að ganga um miðbæ Sarlat. Þessi þriðji hluti ferðalagsins um páskana reyndist svo eftir allt saman verða sá langskemmtilegasti. Ég vona að Lundúna- ferðin um miðjan maí komist í hálfkvisti við þessa.

Sarlat

Beynac virkið
---
Ástæðan fyrir því að ég þurfti að bregða mér til Bordeaux var að ég þurfti að hjálpa Katherine Köhler með tölvuna sína. Hún komst víst ekki inn í tölvupóstinn sinn. Úr því varð ágætis ferð til Bordeaux.

Á mánudaginn hefjast prófin og verða þau alla daga næstu viku. Grétar og Embla koma á föstudaginn. Ég fer til London þann 13 þm. og Sandra og Gísli koma 21. Þetta geta ekki talist mikil rólegheit.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Óvænt

Ég flýg til Bordeaux í kvöld. Útskýri síðar.

mánudagur, 27. apríl 2009

Ferðalög - Riberac, Bordeaux (fyrri hluti)

Páskafríið á Svæði C í Frakklandi (París, Bordeaux ofl.) hófst þann 10. apríl sl. Landinu er nefnilega skipt niður í þrjú svæði þar sem mismunandi dagar skiptast niður í jafnmarga frídaga. Þannig er allt landið ekki í fríi á sama tíma og þar með stíflast ekki allir þjóðvegir, lestarstöðvar, flugvellir osfrv. Ég átti nokkra daga til að liggja í leti í París áður en hið „mikla“ ferðalag mitt um suðvestrið hófst.

Paul tók á móti mér í Angoulême upp úr kl. hálfþrjú, en þó reyndar af algerri tilviljun. Hann hafði sagt mér að hann yrði eitthvað seinn og það gæti jafnvel farið svo að ég þyrfti að bíða í einhvern klukkutíma. Vitandi það að Paul myndi hringja í mig þegar hann kæmi, ákvað ég að gera stuttan túr um bæinn, en svo ljótur var hann að ég sneri við stuttu síðar. Á nákvæmlega sömu stundu og ég kem tilbaka á lestarstöðina kemur Paul. Síminn hans var þá týndur og hefði ég því að öllum líkindum þurft að bíða alllengi eftir símtali, röltandi um bæinn.

Það var lítið gert heima hjá Paul sem væri frásögu færandi. Það væri helst hægt að flokka helgina sem hreina og beina afslöppun. Við borðuðum góðan mat og fórum lítið langt frá bænum. Þó fórum við stutta ferð um Cognac-héraðið og ætluðum að skoða Hennessy koníakframleiðandann, en þar var lokað um helgar. Við fórum þá í skoðunarferð um vínekrur og framleiðslusali Remy Martin. Sem að mínu mati var hálfgert frat. Hálfur túrinn fór í að horfa á eitthvað myndband um framleiðslu koníaks og ræður um að Remy Martin væri stærst og best að öllu leyti.

Heimilið þeirra var, einsog í fyrra, himnaríki líkast. Húsið sjálft er staðsett við miðbæjartorg Riberac. Það skiptist í þrjár hæðir sem gera samtals ábyggilega 500 - 700 fermetra. Herbergið sem ég svaf í var stærra en öll stúdíóíbúðin mín í París.

Sveitin fyrir utan Riberac.

Á sunnudagskvöld kom ég til Bordeaux og sótti Alfreda mig á St. Jean lestarstöðina. Það var svo mikið af fólki heima hjá henni að ég neyddist til að sofa í sófanum í stofunni. Næsta dag fékk ég að flytja heim til Katherine Köhler, vinkonu Alfredu. Það var í fyrsta skiptið sem ég gisti heima hjá henni og var hún enginn eftirbáti Pauls í Riberac. Hún bjó um mig í góðu herbergi með rafstýrðu rúmi og sér baðherbergi. Þar að auki býr hún ekki á allslæmum stað, við Garonne-ánna, steinsnar frá gamla bænum.

Heima hjá K. Köhler.

Ég hafði ekki ætlað mér nein stórræði í þessari ferð. Hún snerist fyrst og fremst um að hitta fólkið aftur. Ég tók þó að mér að vinna svolítið í garðinum hjá Alfredu. Ég reytti ekki bara arfa, heldur gróðursetti ég tvo rifsberjarunna og rabbabara.

Ég, við störf.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Sacré-Coeur og páskafrí

Eftir nokkuð leiðinlegan dag (mánudag sl.) með norska fólkinu í Cité-garðinum við háskólasetrin, hugsaði ég með miklum vonbrigðum til fyrsta dags páskafrísins. Við sátum þar og spjölluðum í sólinni eða lásum, en einhvern veginn var ég í engu skapi fyrir það. Ég vildi gera eitthvað skemmtilegt!

Úr hópnum slitnaði um fjögurleytið, eða kannski var klukkan orðin fimm. Ég fór því einn að Les Halles og ákvað að fara á bíó. Horfði á einhverja hundleiðinlega mynd, en mér var fljótt bjargað frá henni. Kristína, sem hafði hjálpað mér með símtöl mín til Noregs í síðustu viku, hringdi og vildi gera eitthvað. Ég beit fljótur á agnið og hún ætlaði að koma niður í bæ. Natalka hafði þá bæst í hópinn og við héldum eftir langa göngu að Montmartre hverfinu, sem er í norður París.

Þar borðuðum við kvöldmat á stórkostlegum veitingastað (Le Relais Gascon) sem við höfðum fundið nokkru áður. Ég fékk mér lauksúpu. Eftir þennan frábæra kvöldmat, og gott vín, tókum við stefnuna á Sacré-Coeur.

Þar tylltum við okkur í tröppunum og hlustuðum á götulistamenn syngja, drukkum bjór sem var seldur þarna og horfðum á fjöllistaatriði.

Þessi ljósmynd nær á engan hátt að sýna stemninguna sem ríkti

Í dag var minna um að vera, en við gengum mikið, ég ásamt norska fólkinu og við enduðum kvöldið í eldhúsi norska hússins í háskóla- görðunum. Á meðan ég skrifa þennan pistil, ligg ég uppi í rúmi og neyðist til að hlusta á hroturnar úr Josiane sem koma frá stofunni, sem minnir öllu heldur á ljónsöskur alla leið neðan frá Afríku. Þrír dagar þangað til hún fer.

Óperan og afmæli

Frá 3. apríl hefur leigjandi íbúðarinnar (Josiane Puig), sem ég leigi síðan af, verið hér og sofið í stofunni sem hafði fram að því verið læst. Það hefur gengið upp og ofan, en miðað við aðstæður bara nokkuð vel að mínu mati. Hún vakti mig um daginn og sagðist vera með miða í Óperuna þá um kvöldið. Ég var mjög ánægður með það, enda aldrei farið áður.

Óperan sem sjá átti var Makbeð eftir Verdi. Augljóst meistarastykki. Við klæddum okkur vel upp, en ég þó ekki alltof fínt þar sem að ég átti að mæta í surprise-partý eftirá. Þvílík og önnur eins leiðindi hef ég aldrei upplifað áður! Ég segi það alveg satt. Ég gekk með jákvæðan hug til leika, bjóst við hinu besta, en ég gat ekki einu sinni logið því að sjálfum mér að þetta ætti virkilega að kallast skemmtun. Og það versta var, að undir lokin í seinni hluta sjóvsins þá fannst mér einsog þetta væri við það að enda ca. tíu sinnum, en alltaf þurfti einhver nýr að koma á svið, tilbúinn að taka við keflinu þaðan sem frá var horfið!

Loksins, eftir öll þau árþúsund sem þessi sýning varði, var okkur hleypt út í frelsið. Mér þótti þessi veisla sem ég var að fara í ákaflega spennandi þar sem að hafði aldrei upplifað: „Surprise!“ Fyrir utan þó eitt skipti í fimmta bekk þegar Ragga kennari átti afmæli og allur bekkurinn tók sig saman og faldi sig inni í stofu. Það var þó heldur misheppnað og kom henni alls ekki á óvart. Hvað um það, þetta var kvöld nýrra uplifanna.

Eftir langan gang frá Bastillunni að Montmartre götu fann ég heimilis- fangið og gekk upp sex þröngar og gamlar hæðir til að komast í veisluna sem var haldin í þó æðislegri penthouse-íbúð sem nokkrir stóðu í að leigja. Með minni heppni, sem endranær, var afmælis- barnið komið og mómentið farið! Kvöld nýrra upplifanna hvað!

Andartakið, mér fjarverandi

föstudagur, 10. apríl 2009

Fall er fararheill

Páskafríið hófst í dag á föstudaginn langa, og langur verður hann! Á síðustu dögum hefur mér klæjað ægilega í vörina og vinstra augnlok og ég hef óttast að þetta sé ofnæmið sem skýtur upp kollinum annað slagið. Í dag og í gær hef ég svo sannarlega fengið staðfestingu á því. Það er orðið mjög sjáanlegt á augnlokinu og býst ég við því að það fari að breiðast út á allra næstunni. Hörmuleg byrjun á langþráðu fríi sem átti að verða hin mesta skemmtun.

Ég veit ekki hvað það var sem smitaði mig og ég hef enga hugmynd. Venjulega hafa það verið plástrar sem fara svona með húðina mína, en það getur ekki verið í þetta sinnið.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Þriðjudagur í París

Varfærnislega held ég að ég megi kalla daginn í dag fullkominn. Þó það sé alls ekki af því hann var eitthvað merkilegur eða óvenju skemmtilegur. Veðrið var bara svo yndislegt og mér fannst allt ganga einsog í sögu. Ég vaknaði eldsnemma (uppúr kl. átta) við sólina og hóf morgunrútínuna áður en ég hélt í skólann í ræðumennskutíma kl. 10.

Útsýnið heima kl. 20:45. Ekkert voða merkilegt.

Það var skemmtilegur tími, einsog alltaf, og var okkur sagt að byrja að undirbúa ræðuna sem verður hið hálfgerða lokapróf. Hann tilkynnti svo að ég skyldi verða með þeim fyrstu til að flytja hana í næstu viku. Þetta verður aðeins erfiðara en fyrri skiptin þarsem að við eigum að semja ræðuna sjálf, en áður höfum við einungis þurft að finna einhverja góða ræðu til að flytja. Í síðustu viku ákvað ég að flytja ræðu Bills Clintons þar sem að hann biðst afsökunar á ruglinu í kringum Monicu Lewinsky. - Ég fékk ágætan hlátur fyrir það. - En í þessari ræðu eigum við að hrósa eða styðja einhvern eða eitthvað sem okkur er etv. hjartnæmt. Ekki hef ég hugmynd um hvað það gæti verið!

Eftir tímann fór ég ásamt Kristínu í Buttes-Chaumont garðinn, þar sem við átum hádegismat og lágum í leti í sólinni. Ég náði m.a. að lesa heilan fjórðung úr bókinni um manninn sem skein skærar en kóngurinn: „The Man Who Outshone the King“. Stórkostlega skemmtileg bók um Nicholas Foucquet, sem náði á ævi sinni að rísa til gríðarlega valda innan Frakklands, en varð síðan fangelsaður vegna afbrýðissemi konungsins og... ég er ekki kominn lengra. Mig grunar að hann verið tekinn af lífi. Eftir þessa frábæru nokkurra klukkustunda hvíld fór ég í hagfræði og hélt heim.

Ég var staðráðinn í því að ljúka öllum farmiðakaupum í dag. Ég hafði nokkrum sinnum farið í SNCF-búðirnar, sem eru hálfgerðar ferðaskrifstofur franska lestafélagsins... en alltaf rokið beinustu leið út aftur, því fjöldinn þar inni var óbærilegur.

Í dag skyldi ekkert heita óbærilegur fjöldi. Ég gekk inn og leit yfir mannfögnuðinn og sá þar innst inni tvær manneskjur, karlmann og konu, vinna hægt og rólega að því að sinna öllum skaranum. Ég tók númer og á stóð: 249. Ég þorði varla að lýta á tölvuskjáinn sem sýndi hvert þau voru komin. 202. 46 manns á undan! Sem betur fer tók ég Nicholas Foucquet með mér, svo að ég settist niður og fór að lesa. Allt gekk vel... ég þurfti að breyta einum miða og kaupa tvo í viðbót og ég þurfti lítið sem ekkert að borga í viðbót, ekki nema €26,90. Svo var biðin nú ekki alslæm. Bara 2 klst. og 20 mín!

Svona hljóðar ferðaplanið yfir páskana:

17. apríl, París - Angouleme (€43,50). Þar tekur Paul McQuillan á móti mér:

19. apríl, Angouleme - Bordeaux (€11,20). Í þetta sinnið mun ég gista heima hjá Catherine Köhler, sem verður mjög sérstakt reikna ég með. Ég hef alltaf gist hjá Alfredu, en hún er með gesti yfir páskana, svo að þetta varð úrlausnin.

24. apríl, Bordeaux - Bergerac (€7,30). Þar ætla ég að hitta Melanie frá Bretlandi. Við munum gista þar á einhverju hóteli í eina nótt, en leigja síðan bíl og keyra hingað og þangað.

26. apríl, Bergerac - Bordeaux - París (€66,40). Fimm tíma ferðalag, en sem betur fer á fyrsta farrými.

þriðjudagur, 31. mars 2009

Hjólaferð og Disneyland

Þar sem að það er svo langt síðan að ég hafi skrifað einhvern texta hér, þá er mikið að fara yfir. Þess vegna munu smáatriðin eflaust verða færri.

Á sunnudaginn 23. mars fórum við allmörg í hjólatúr í Bois de Boulogne, sem þýðir einfaldlega Boulogne skógur. Við leigðum hjól við munna skógsins á €10 og héldum okkar leið. Þetta var fallegur dagur og hitinn góður. Ágætt svona fyrir það veðravíti sem við þurftum að þola vikuna eftir; hita allt niður í 6°C og rigningarúða annað slagið!

Við borðuðum snarl við manngerðan foss, sem mér fannst reyndar frekar misheppnaður. Stuttu síðar héldum við tilbaka. Það sem mér fannst merkilegt var að allan þann tíma sem við hjóluðum um garðinn frá hjólaleigunni, að hjólaleigunni, hjóluðum við niður í mót. Við þurftum aldrei að strita og púla eða fara upp brekkur. Að því er ég kemst næst, þá á þetta ekki að vera mögulegt, svo að einhverjir ótrúlegir (en nytsamlegir) galdrar hafa greinilega verið viðhafðir við hönnun garðsins.

--
Á laugardaginn var fórum við Natalka, Kristína og vinkona hennar frá Noregi, Unni-Gabríella, í Disneyland. Það var eitt stórt ævintýri frá upphafi til enda. Unni hefur búið allt sitt líf í Noregi, en er upphaflega fædd í Chíle. Hún kynntist Kristínu í menntaskóla í Ósló. Það var hálfsérkennilegt hversu fljótt henni tókst að eiga áreynslulaus samtöl við okkur hin, bláókunnugt fólk. Það er sérstakur hæfileiki sem ég vildi gjarnan búa yfir.

Við fórum í langflest tækin, byrjuðum reyndar á því sem, að ég held, á að vera það skelfilegasta. Mér fannst það þó ekkert merkilegt. Kannski vegna þess að ég loka bara augunum og bíð þangað til ósköpin eru staðin yfir... og reyni jafnvel að hindra heila minn um að hugsa um að teinarnir munu losna.

Veðurspáin hafði verið slæm, sem ég var reyndar ánægður með. Því eðli málsins samkvæmt ættu færri að mæta þess vegna. En svo reyndist alls ekki. Veðrið var ekki með besta móti, en nógur var mannsskarinn. Stuttu eftir hádegi vorum við Kristína ein á Main Street í Disneylandi að bíða eftir hinum, og allt í einu byrjar hann að hella af himnum ofan. Við stöldrum ekki lengi við og drífum okkur inn í næstu búð. Þar fundum við rándýrar, skærgular regnslár sem kostuðu €8! Við keyptum þær og flýttum okkur út þangað sem að við áttum að hitta stelpurnar. Þær komu á endanum og við hreykin af okkar nýjustu fjárfestingum, en að sjálfsögðu, einsog hendi væri veifað, stytti upp og sólin byrjaði að skína.

(Myndir koma síðar)

föstudagur, 20. mars 2009

Glíman við France Telecom

Það var ekki beint þægileg tilfinning að opna umslagið frá Orange France Telecom nú í vikunni og sjá símreikning upp á tæpar 1.300 evrur, eða 198 þúsund krónur! Hvernig gat þetta staðið? Ég fór nú að hugsa tilbaka þegar ég skrifaði undir samninginn. Maðurinn bauð mér tilboð: Endalaus símtöl til Íslands o.fl. á 7 evrur, fyrir utan hið staðlaða mánaðargjald.

Heilinn minn fór fljótt að vinna að lausnum og lá beinast við að loka bankareikningnum og flýja heim. Ég fór að sofa það kvöldið í hálfgerðri depressjón, en fékk aukinn eldmóð eftir að ég talaði við sögukennara minn. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri sígerettuframleiðandans Philip Morris í Frakklandi áður en hann lét undan samviskunni og keypti sér vínekru í Bordeaux og fór að kenna. Hann sagði mér á hverju ég ætti að byrja, og síðan skref fyrir skref, hvernig ég ætti að tækla þetta. Að lokum sagði hann mér að hann þekkti lögfræðing sem gæti tekið þetta að sér.

Það reyndist ekki þurfa mikið til, sem kom mér svo sannarlega á óvart, því öllu þarf maður að berjast fyrir í Frakklandi. Ég einfaldlega hringdi í þjónustuverið og sagði þeim frá mínum vandamálum og minnsta málið, þetta var leyst á örfáum mínútum. Ég átti ekki eitt aukatekið orð.

---

Veðrið í dag: 18°C, sól.

Mótmæli, að vanda

Af síðustu þremur verkföllum sem hafa verið hér, hef ég aldrei fundið fyrir þeim og reyndar ekki vitað af þeim, fyrr en ég las það á mbl.is. Í dag var víst eitt slíkt og eru menn úr öllum geirum að mótmæla alls kyns hlutum. Ég held að stærst sé að sumir voru að upplifa frönsku útgáfuna af HB Granda fíaskóinu, þegar stærsta olíufélag Frakka skilaði methagnaði, en er að segja upp starfsfólki vegna árferðis. Ég sá einhver mótmæli við óperuhúsið í hverfinu og tók nokkrar myndir af því.
En talandi um Bastilluóperuna, þá held ég að við megum una vel við að sitja ekki uppi með álíka skrýmsli við Reykjavíkurhöfn sem kostaði Parísarbúa 66 milljarða króna árið 1989. Tæpir 20 ma.kr. fyrir hina glæsilegu Tónlistar- og ráðstefnuhöll sem mun rísa, tel ég bara vel sloppið. Að þetta ferlíki skuli hafa verið valið úr hópi 756 tillaga er ofar öllum mínum skilningi.

sunnudagur, 15. mars 2009

Öðruvísi mars með meiru

Það verður að kallast stórkostlegt að geta vaknað þann 15. mars og horft út á heiðskýran himinn í 15°C hita. Allt verður frábært og ekkert skiptir máli. Meira að segja þynnkan hverfur á augabragði. Það er merkilegt hvað maður stjórnast af veðrinu!

Ég vaknaði við að síminn hringdi uppúr kl. tvö, en það var bara ágætt. Natalka Tanner bauð mér að koma með sér í Lúxemborgargarðinn, þar sem að veðrið væri svona gott. Liggja þar í leti þangað til um kvöldmatarleyti og borða eitthvað gott á veitingastað í grenndinni. Við buðum Norðmönnunum Krístínu Daae Smedsvig og Katrínu Tysnes með.

Garðurinn var troðfullur. Hann var það troðinn að það var erfitt að komast inn. Allir stólar voru teknir og að sjálfsögðu mátti ekki sitja á grasinu. Við létum það að litlu leyti á okkur fá, og sátumst á steypuklumpa við vatnið þar sem börnin voru að leika sér með litla seglbáta.

Um kvöldið borðuðum við rándýran mat á indverskum veitingastað sem var alls ekki minn fyrsti kostur. Ég var ekki ánægður, en ég faldi það vel.

sunnudagur, 1. mars 2009

... og það var ekki lengi að fara!

Þrjá, kannski fjóra daga, fengum við af sól og hita yfir 20°C. Í dag tekur við kuldi og rigning, og ekki trúi ég því að það sé skárra í París, en þangað fer ég þriðjudagskvöld.

Í gær komu mæðginin (Alfreda og Pierre) heim frá Berlín og þurfti ég því, því miður, að flytja mig úr hinu þægilega hjónaherbergi í eitt af herbergjunum á efri hæðinni. Ég verð að segja, ég var orðinn vel vanur því að vera hérna eins míns liðs. Pierre stoppaði ekki lengi og keyrðum við hann í skólann í morgun, þar sem hann reyndar verður næsta mánuðinn. Hið athyglisverða við skólann sem hann er í, er að hann er eingöngu fyrir feita krakka. Allan sá skara offeitra krakka hef ég ekki séð saman komna á einum stað áður.

Annars er lítið um að vera. Ég er farinn út að skokka.

laugardagur, 28. febrúar 2009

Vorið er komið... allavega hér

Undanfarnir dagar hafa verið stórkostlegir. Aldrei hef ég upplifað slíkt vorveður þegar enn er febrúar. Sólin hefur skinið og á einum hitamæli sá ég 21°C, þó ég taki því með fyrirvara. Ég hef ekki verið að gera heilmikið, og raunar bara nánast ekki neitt, en þannig á það að vera í fríi. Ég tek mín frí mjög alvarlega. Þau eiga ekki að fara í vinnu utan vinnu. Ég hef þó verið að dunda mér við að taka til, nota bene í algerri afslöppun, og þreif þar að auki bílinn. Ekki það að ég sé góðmennskan uppmáluð. Ég býst við miklu þakklæti á móti.

Ég skutlaði Charlotte á verkstæðið svo að hún gæti sótt bílinn sinn. Hann var loksins tilbúinn eftir endalausar ferðir fram og tilbaka. Annað gerði ég ekki í dag.

Húsmóðirin kemur frá Berlín á morgun um kvöldmatarleytið.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Aðgerðaleysi í „sveitasælunni“

Dagarnir hér eru heldur fábreyttir, sem er kannski fyrir bestu. Ég veit það að ég mun snúa tilbaka að fullu endurnærður, sem vonanadi mun duga mér að næsta fríi í apríl. Ég kvaddi mæðginin og skutlaði þeim út á flugvöll á laugardaginn var og síðan þá hef ég rembst við að fylla daginn.

Í gær, sunnudag, gekk ég meðfram ánni ásamt fjölskylduvini fólksins, Catherine Köhler. Hún er tiltölulega nýkomin heim eftir að hafa eytt undanförnum mánuðum í Nýju - Kaledóníu, sem hún gerir hvern vetur. Hún var þó kölluð heim snemma í ár, því hún fékk heilablóðfall seint í janúar. Eftirköstin eru sem betur fer ekki mikil, nema að hún er í endurhæfingu til að ná sínum fyrri styrk og þjálfa göngulagið.

Í dag hitti ég dóttur konunnar sem ég gisti hér hjá (Charlotte), og reyndi að hjálpa henni með bílinn sinn sem hún klessti í vikunni. Hún er reyndar svolítið merkilegri en við hin, en hún er víst barónessan af Bordeneuve, og er hennar fulla nafn: Ann-Charlotte Speitel de Lart de Bordeneuve. Snobbið í mér tók sterkann kipp þegar ég frétti þetta.

Á morgun mun ég halda áfram hreingerningunni hér á heimilinu og hugsanlega fara í bíó.

Bordeaux, taka þrjú

Það var ekki hið auðveldasta að komast leiðar minnar hingað, enda hafði undirmeðvitund mín tekið í taumana og ákveðið að gera þetta svolítið spennandi. Ég hafði nánast beðið frá því um klukkna fjögur eftir skóla, þar til að tími var kominn til að halda mína leið á lestarstöðina, en lestin átti að fara 21:03.

Ég var að mestu leyti búinn að pakka og var að undirbúa iPodinn þegar að ég áttaði mig á því að klukkan væri tíu mínútur yfir átta! Og ég átti eftir að fara í gegnum allt neðanjarðarlestarkerfið að Montparnasse. Það var reyndar vel mögulegt, en ég hastaði mér út í heilmiklu stresskasti. Ég sagði við sjálfan mig: „Ég er að gleyma einhverju!“ Sem síðar átti svo auðvitað eftir að reynast rétt.

Ég tók sprettinn að Bastillunni þar sem ég skyldi taka neðanjarðarlestina, en þegar þangað var kominn vildi ég athuga á miðann klukkan hvað, nákvæmlega, lestin ætti að fara... en miðann vantaði. Þá hljóp ég einsog fætur toguðu með ferðatöskuna í eftirdragi. Hljóp upp hæðirnar fjórar og fann miðann, hljóp síðan tilbaka og velti því fyrir mér í heilmikilli angist, hvort fljótara það væri að taka metróið eða leigubíl. Ég endaði á því að taka leigubíl.

Klukkan var hálfníu, brottför eftir rúman hálftíma. Ég sagði leigubílstjóranum að hún færi eftir tuttugu mín. svo hann færi nú örugglega ekki að taka einhvern snúning kringum borgina til að næla sér í nokkrar aukaevrur. Á endanum hafðist þetta allt saman.

---
Það var eitt sem ég tók eftir. Maður hefur oft séð það í gömlum myndum þegar einhver kemur hlaupandi, seinn, og reynir að ná lestinni. Nær sá svo að hoppa upp í hana á ferð. Ég hélt að svoleiðis væri ekki hægt lengur, vegna allra öryggisreglna og sjálfvirkra hurða. En jú, mér þótti það áhugavert að sjá, að lestin tekur af stað og þegar hún er komin í ca. tuttugu, þrjátíu km. hraða, þá lokast dyrnar. Einmitt ábyggilega útaf þessu. Merkilegt nok.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Bordeaux á morgun, taka tvö

Á morgun fer ég til Bordeaux í annað sinnið í þessum mánuði. Næsta vika, sem og mestur partur vikunnar þar á eftir, fer undir vetrarfrí, og hvergi fríinu betur varið en í sveitasælu Bordeauxborgar.

Það verður þó með öðru sniði en fyrri ferðir þangað, því fjölskyldan verður í Berlín. Verð ég því einn í húsinu og skilja þau meira að segja bílinn eftir handa mér. Mér er þó um og ó yfir þessu fyrirkomulagi, enda er húsið stórt og drungalegt á næturnar. En þetta verður allt sveipað rómantískum blæ, enda þarf ég að styðjast við hita frá arninum, þar sem að kyndingin er slæm.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Bordeaux á morgun

Ég vaknaði við það að sólin braust í gegnum gardínurnar snemma í morgun og ég spurði sjálfan mig hvort sumarið væri kannski að boða komu sína snemma í ár. Svo var þó aldeilis ekki þegar út var komið, ég alltof illa klæddur í hitastigi ábyggilega við frostmark. Ég var fórnarlamb hins gamalkunna gluggaveðurs! Ég lét það þó ekki á mig fá og hélt mína leið í skólann.

Hópurinn minn átti að halda kynningu í dag í sögu um bókmenntir á fyrri öldum Bandaríkjanna. Ég þurfti nánast að flytja minn part eftir minni, enda hafði mér ekki gefist tími þá um morguninn að prenta út textann minn. Ég hripaði nokkrum stikkorðum niður á blað og reyndi að læra þetta utanað. Sem það svo tókst þokkalega og fór ég með þetta nokkurn veginn áfallalaust. Sviðsskrekkurinn er þó hvergi farinn, því röddin mín titraði svo að það mætti segja að ég hafi jarmað þetta út úr mér.

Enn hafði ég ekki leyst úr flækjunni með miðann sem ég keypti til Bordeaux fyrir ranga viku. Úr varð að ég mun taka lestina til Bordeaux á morgun kl. 20:20, og verð ég því kominn á áfangastað kl. 00:03. Við komumst að þessu samkomulagi ég og Alfreda, en hún var ekki ánægð yfir þessum ruglingi með miðana.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Í engu bloggskapi

Síðastliðnir dagar hafa farið í það að framkvæma þá gríðarstóru ákvörðun sem ég tók nýlega, sem og að undirbúa öll þau frí sem ég sé fram á hér við skólann. Næsta frí hefst þann 20. næstkomandi og stendur yfir í um tíu daga. Ætla ég að taka lestina til Bordeaux og eyða fríinu þar. Mér varð þó á þau mistök að kaupa miða fyrir vikuna áður, en til happs er annar miðinn breytanlegur án kostnaðar, og því bara einn ónýtur.

Fjárhagslegt tjón: €25

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Nýjustu tölur

Frekari prófaútkomur eru eftirfarandi:

Corporate Finance (rekstrarhagfræði?) - 17,3 / 20
Financial Markets (fjármálamarkaðir) - 16 / 20
Introduction to Finance (inngangur að fjármálum) - 14 / 20
Introduction to Banking (inngangur að bankafræðum) - 11 / 20
ABC (bandarísk saga) - 17 / 20

mánudagur, 26. janúar 2009

Niðurstöður prófa

Fyrsta einkunnin er komin í ljós og er hún úr hagfræði. Niðurstöðurnar voru mjög slæmar yfir alla deildina og kom í ljós að ég deildi hæstu einkunn með einum öðrum, 16 af 20.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Lundúnaferðin

Á fimmtudaginn var fór ég í heimsókn til Freyju Sjafnar ásamt: Ása, Ásgeiri, Elvari, Jóhanni, Söndru, Tinnu og Þóroddi. Fyrir voru í íbúðinni og þrír, svo að augljóst var að verulega yrði þröngt á þingi. Reyndist íbúðin þó rúma okkur vel, þannig að ég held að enginn geti kvartað yfir plássleysi.

Tóku Freyja og Sandra á móti mér á King's Cross St. Pancras lestarstöðinni um hálfellefuleytið þá um kvöldið. Snemma næsta dag komu strákarnir og fórum við í bæinn. Við gengum framhjá þinghúsinu, Westminster Abbey, London Eye, Buckinghamhöll og enduðum á Oxford stræti.

Laugardagurinn bar í för með sér heldur óvænta stefnubreytingu, en í henni fólst að ég dróst á leik Chelsea og Ipswich í bikarkeppninni. Það kostaði um 15 þúsund kr. Til að verja þessi fjárútlát verð ég að segja að ég keypti nánast ekkert annað, þá fyrir utan mat.

Ég komst að lokum heim eftir ófyrirséða seinkunn á brottför minni, heill á húfi. Heildarkostnaður ferðarinnar nemur um 40 þúsund kr.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Fyrsti skóladagurinn

Hann var ekki beint strembinn, fyrsti skóladagurinn að loknum jólaprófum. Fyrsti tíminn, kl. 13:45 var þó krefjandi þjóðhagfræðitími og að honum loknum tók við fjármálastærðfræði á frönsku. Ég komst að því að ég hafði þegar farið yfir mestanpart hennar í Corporate Finance, svo að efnið var fremur létt yfirlestrar. Ég held nú samt að ég muni sækja þessa tíma til að bæta frönskuna, og sjá hvort ég höndli þetta ekki.

---
Norðmaðurinn frá írska kvöldinu sagði mér að einhver pláss væru að losna í norska og sænska kampusinum í Cité Universitaire. Ég ætla að velta þessu fyrir mér á næstu dögum.

Evrópsk menning

Á laugardaginn var byrjaði ég í tíma sem heitir Evrópsk menning og er heilla fimm eininga kúrs hér við skólann. Í honum er ekki setið í kennslustofum og hlustað á þunga fyrirlestra um leikrit, list eða eitthvað þvíumlíkt. Heldur er ferðast um París og listina leitað uppi.

Byrjuðum við á því að fara í bátsferð um Signu, þvert í gegnum París. Sem var lítið betra en ágætt, enda leiðsögumaðurinn eftir því. Svo þarf siglingin að þola heldur ósanngjarnan samanburð við mína títtnefndu Kanalrundtfarta um sundin í Kaupmannahöfn. Fátt gæti staðið slíka viðlíkingu.

Að bátsferð lokinni fórum við langan túr um borgina. Enduðum við á írskri krá þar sem okkur var boðið upp á kássu og kynntist ég Svíum og Norðmönnum. Lengi vel hélt ég að Svíar væru skemmtilegasta og besta fólk í heimi, en Norðmenn hafa nú skotið þeim ref fyrir rass.

Dagur tvö hófst á ferð okkar í Tour Montparnasse, sem er næsthæsta bygging Frakklands á eftir Eiffel turninum, án þess þó að ég þori að sverja það. 210 metra hár og 59 hæðir.

Við komum þarna á besta tíma um kl. rúmlega fimm og fengum því tækifæri til að sjá borgina í ljósaskiptum. Hreint út sagt magnað útsýni af efstu hæðinni. Brandarinn er að þetta sé fallegasta útsýnið í París - einmitt vegna þess að þú sérð ekki bygginguna sjálfa. Það er skemmtilegt að horfa niður og sjá borgarskipulagið; hvernig húsum hefur verið troðið einsog hægt er innan byggingasvæðanna. Að ofan sést skipulagið sem kaósin niðri felur.

Það er síðan hægt að fara upp á turninn, en þar er vægast sagt einsog franska útibúið af Kjalarnesi! Veðrahelvítið var svo að flestir voru hræddir um að fjúka fram af. Ég stoppaði stutt og flýtti mér í skjól.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Nýtt upphaf

Í dag hófst skólinn formlega á ný eftir eitt það allra tilgangslausasta frí sem ég hef þurft að þola. Þá er ég ekki að tala um jólafríið, heldur það frí sem stóð frá 7. janúar til 15. janúars. Þann 6. sl. höfðum við nefnilega þurft að fljúga hingað út til þess að mæta í síðasta „jólaprófið“, en eftir það stóðu allir uppi með frjálsar hendur. Eftir hrikalega stutt en laggott jólafrí þótti mönnum víst nauðsynlegt að fólk skyldi eiga annað frí, en þá á meginlandinu í Parísarborg.

Dagurinn í dag samanstóð af tveggja tíma ræðu, kynningu á breytingum sem hafa orðið milli anna. Sú nýbreytni er tilkomin að fólki er ekki lengur frjálst að velja sín fög að öllu leyti, sem áður. Enda var það slíkt sem ég gagnrýndi harðlega, bæði opinberlega og í bakherbergjum. Faktíst hefði ég getað, samkvæmt gamla kerfinu, forðast alla stærfræði, svo dæmi sé tekið, eða hugsanlega öll viðskiptafög! Hvers lagst viðskipta-diplóma er það sem leyfir svoleiðis? Það var þó ekki lengi að bæta úr því.

Það var ánægjulegt að sjá til sólar. Ég hafði ekki séð til hennar í nokkra daga. Sólarhringurinn var orðinn þannig! Ég ákvað af því tilefni að fara út í kuldann og skokka einhvern örsmáan hring. Mér varð þó oftar en ekki stansað við hin ýmsu kennileiti og götuheiti sem ég þekkti úr Minnisbók, bókinni hans Sigurðar Pálssonar, sem ég var að lesa. Skemmtilegt nok fannst mér. Bókin er um námsár hans í París frá '68 og framvegis. Eitt sem ég þóttist ekki geta séð úr bókinni, en saknaði mikið, var að eiga þá vonarglætu um að finna ódýrt kaffihús. Ég fann samt ókeypis safn um sögu Parísar. Staldraði þó stutt við.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Ófremdarástand og óeirðir á Íslandi

Ég komst í það að horfa á CNN um daginn og viti menn var ekki vídjó frá einhverjum mótmælunum heima á Íslandi, eða óeirðum, réttara sagt. Það leit út einsog ástandið væri litlu skárra en á Grikklandi, og það á CNN!

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Óvæntur gestur

Mér brá heldur betur í brún þegar ég las síðasta tölvupóstinn frá Soffíu, stelpu sem var í tungumálaskólanum í Bordeaux með mér. Hún tók sig til og keypti bara flugmiða - Stokkhólmur-París - og ætlar að koma í heimsókn í Maí. Reyndar hafði ég mörgum sinnum sagt við hana að hún ætti að koma, enda ekki löng leiðin - eða hitt þó heldur. En við hverju á maður að búast þegar maður slengir fram slíku tilboði? Ekki það að engin meining hafi fylgt því. Ég er bara hissa.

Þetta er reyndar hin fínasta og skemmtilegasta stelpa, svo að ég veit ekki hverju ég ætti að kvíða. En ég geri það nú samt.

Vegabréf, sendiráðið og Versalir

Dauðaleitin bar engan árangur, og eftir hana hef ég sannfært mig um að þessu blessaða vegabréfi hafi verið stolið. Til þess að fullvissa mig um að það færi á engan veg framhjá mér tók hvert og eitt sem ég á í þessarri íbúð, höndlaði það og grandskoðaði, og setti það á rúmið mitt. Að leit lokinni var rúmið ofhlaðið alls kyns hlutum og ég fór í síðasta inspeksjón-leiðangur - en fann ekkert. Rannsókn lokið; niðurstaða: Vegabréfinu var rænt.

Vegna Lundúnaferðarinnar varð ég því að fara í háaloft Klébergötu 8, sem er sendiráð íslenska lýðveldisins í París og ræða við starfsfólkið þar. Skipulagði ég sendiráðaleiðangur með skólasystur minni sem þurfti að láta endurnýja vegabréfið sitt og byrjuðum við á því að fara í sendiráð hennar; hið breska.

Við vorum komin einhverjum mínútum fyrir opnun, en þá var hafði þegar myndast röð við innganginn. Loksins var okkur hleypt inn og einkenndist þetta allt af bið, og enn meiri bið, enda átti þetta eftir að taka okkur um tvo klukkutíma. Þetta var þó tæpast leiðinlegt, því á biðstofunni gátum við heyrt öll þau erindi sem fólk bar upp, sem var stundum hin mesta skemmtun. Eða betra orð væri etv. sjokkerandi. Ég er að tala um skemmtun á svipaðan hátt og þegar fólk hópast í kringum slagsmál. Einn maður hafði tapað vegabréfinu og átti bókað flug til Bretlands, en ekkert var hægt að gera. Hann þurfti, einsog aðrir, að bíða þessa sjö til tíu daga. Ekki leist mér á blikuna, því ég var í nákvæmlega sömu aðstöðu.

Eftir þetta náðum við á sprettinum að komast í íslenska sendiráðið korter í lokun. Þar mætti mér hin indælasta kona sem fannst þetta vera hið minnsta mál. Neyðarpassann fékk ég og borgaði fyrir €14, á meðan breska stelpan þurfti að borga €137. Þar að auki tók heildarprósessið ekki nema fimmtán mínútur! Það er því eitt að vera Íslendingur og annað að vera Breti.

Á sunnudaginn fór ég ásamt stráki frá Pakistan og stelpu frá Kanada til Versala í heimsókn til skólasystur okkar sem er frá Brasilíu. Þar skoðuðum við höllina að utan, í mitt annað sinni, sem var þó allt önnur upplifun en hin fyrri. Ég veit ekki á hvaða efnum ég var þá, því mér þótti höllin á flestan hátt tilkomulítil. Varð þetta hinn besti dagur og eru í framhaldi þreifingar um að fara til Disneylands. Ég veit ekki alveg hvort ég nenni.

sunnudagur, 11. janúar 2009

London kallar

Oft hefur borist til tals hjá okkur, nokkrum úr bekknum, að heimsækja Freyju okkar, sem er að læra fatahönnun í Bretlandi. Alltaf hef ég tekið vel í það og frekar ýtt á eftir því En heldur betur tók ég vel í það þegar þetta kom upp nú í vikunni, þar sem að ég er staddur í París og þarf ekki að borga hið ógurmikla fluggjald frá Íslandi. Nú er svo ákveðið að við munum öll hittast þann 23. janúar heima hjá Freyju í London. Ég fer reyndar einum degi fyrr.

Ferðaáætlunin er eftirfarandi:

París - London: 22. janúar, kl. 20:50
London - París: 25. janúar, kl. 7:52

En þá hefst önnur vitleysan! Hvar er passinn? Fyrr í haust týndi ég gamla vegabréfinu, pantaði mér nýtt, borgaði 10 þúsund kr. fyrir, fann svo gamla passann, týndi nýja og nú stend ég í dag með ógilt vegabréf, 10 þúsund kr. fátækari - og ellefu dagar í brottför. Ég mun gera dauðaleit á morgun, og ef ekkert finnst, halda í sendiráðið og fá útgefið neyðarvegabréf.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Próf og prófraunir

Í kvöld tróð ég mér inn á eina stelpu sem er með mér í skólanum til að læra undir prófið sem er á morgun í Sögu, því ég læri miklu betur með öðrum. Það gekk mjög vel þangað til að við áttuðum okkur á því að lokaprófið gilti bara 25% af lokaeinkunninni. Fátt annað hefði dregið úr mér allan eins þrótt! Og fórum við því að tala um hvað við skyldum gera í allan þennan tíma sem við hefðum þessa önnina, sem er um fimm mánuðir, en ekki þrír einsog hin fyrri.

En áður en við hættum að læra, sagði hún reyndar svolítið sem ég pældi ekki of mikið í fyrr en eftirá: Allt í einu skellir hún uppúr og ég spyr hvað sé. Þá ræskir hún sig og segist hafa verið að lesa grein í skólablaði í Kanada sem segir það að til þess að geta lært vel og ítarlega undir próf, þá væri gagnlegt í því markmiði að sofa hjá, því það eyddi svo mikilli spennu og opnaði fólk fyrir lærdómi. Ég tók undir það, og sagði að það hlyti að vera, en svo lítið um það meir. Var þetta tilboð um að gera hitt? Og ég bara svo grænn og glórulaus? Ég bara spyr.

Eftir að lærdómsþrótturinn hvarf fórum við að ræða, einsog ég sagði áður, um hvað við ættum að gera þessa mánuði. Því ekki bara er önnin lengri um tvo mánuði, heldur er stórum og miklum fríum dreift þar um, samtals um tæpur mánuður myndi ég halda! Hvað er vitið í því? Ég vil taka þetta í einum rykk, skiljanlega, í staðinn fyrir allt þetta hangs. Menningarmunur Íslendinga og Frakka spilar þar stóra rullu held ég.

Minntist ég á samtal sem ég átti við Jón Davíð og fjölskyldu þar sem þau spurðu mig alls kyns spurningar um hvort ég hefði verið að stunda menningarlíf Frakklands; leikhúsin; söfnin; tónlistarlífið o.fl. En svörin voru öll skömmustulega: Nei! Ég bar við nísku og sparsemi, en er það satt? Í þessu ljósi settum við okkur fjöldann allan af markmiðum um menningarferðir um gjörvalla París og víðar, sem við ætlum líka að troða upp á valda bekkjarfélaga.

„Heimkoma“, og þar fram eftir götunum

Eftir heldur tilfinningaþrungna brottför, þótt lítið það hafi borist á yfirborðið, þá hefur gleðin tekið við á ný. Ég hélt út þann 5. sl. í ógurmikilli þoku, leist því ekkert á, og í flugstöðina kominn fór ég beint í 66°Norður og ætlaði mér að kaupa eitthvað. Mér til mikillar ánægju sá ég að úlpan sem ég hafði þráð í u.þ.b. tæpar tvær vikur var á rúmum tíu þúsund kr. lægra verði en í bænum! Ekki nema 44 þúsund. Ég sem hélt að þetta kostaði orðið nákvæmlega sama, hvort heldur í bænum eða í fríhöfn.

Því miður var stærðin mín ekki til. Afgreiðslustúlkurnar voru sumar samt að reyna að telja mér trú um að þetta gengi alveg, en ég hélt ekki. Ég spurði líka fólk í kring, sem var mér sammála. Ég náði þó að kaupa mér eitthvað annað miklu ódýrara.

Í flugvélina var ég settur innst inn í þvöguna sem mér finnst alltaf myndast afturí, með barnafólkinu og þvíum líku. Og meira segja var kona við hliðina á mér sem fyrirfram vildi biðjast afsökunar á því að hún skyldi verða ælandi flugið. Ekki leist mér á blikuna! Flugfreyjan sem var að sjá um okkur, lýðinn aftast í vélinni, brá sér þó á tal við mig og fór að spurja út í það sem ég hafði keypt í 66°Norður, og dást að því. Ég sagði henni sögu mína af úlpunni og verðinu og fannst henni það hóflega merkilegt, en nógu merkilegt að hún hafði ágætlega gaman af.

Loks er allt var orðið troðið fór hún að týna örfáa til að setjast í fremri sætaraðirnar, og þá að sjálfsögðu tók hún mig. Þetta reyndist því alveg stórkostlegt flug; sætin jöfnuðust alveg á við Saga, enda nóg plássið og eitt sæti laust í miðjunni. Enginn matur samt, en ég var með nesti. Og reyndar fékk fúllynda flugfreyju í staðinn. En hvað sættir maður sig ekki við?

Hún var fljót að koma þreytan frá svefnleysinu nóttinni áður, þó ég hefði ekkert viljað sleppa því. Ég skemmti mér ágætlega það kvöldið, en ég var vel gagnrýndur fyrir þessa þreytu af öðrum ferðalöngum sem höfðu lagst í margfalt lengri ferðalög til að enda hér í París, þá sérstaklega eftir að ég var inntur eftir tímamismuninum og hvort flugið hafi verið óþægilegt.