mánudagur, 29. september 2008

Skólinn byrjaður

24. september.

Skólinn er, má segja, hálfpartinn byrjaður. Þessa vikuna hefur stundataflan verið fullbókuð frá morgni til kvölds þar sem að ég hef sótt alla þá tíma sem stendur til boða, og er það mitt að velja úr og hafna. Stundataflan sem ég hef myndað mér er svona:

Mánudagur 8:15 - 18:45 (tæplega fjögurra tíma gat í hádeginu)
Þriðjudagur 8:15 - 20:30 (tveggja tíma gat í hádeginu)
Miðvikudagur 8:15 - 20:30 (Tveggja tíma gat í hádeginu)
Fimmtudagur 13:45 - 17:00
Föstudagur Frí

Að sumu leyti er þetta alveg hrikaleg stundatafla ... frá átta að morgni til hálfníu að kvöldi! En þriggja daga helgin bætir þetta að miklu leyti upp. Svo held ég að þetta venjist fljótt.

Samt spyr ég mig: Er það svona sem evrópska kerfið er á móti því bandaríska? Í Evrópu er Bachelor háskólanám iðulega þrjú ár en í Bandaríkjunum fjögur. Ég hélt að ástæðan væri að vestanhafs þyrfti fólk að taka mun meira af grunnfögum einsog sögu, bókmenntum, náttúrufræði o.s.frv. Kannski er það bara vegna þess að hérna megin er fólk í skólanum bókstaflega frá morgni til kvölds.

sunnudagur, 28. september 2008

Fyrstu dagar i Paris.

11. september.

Dagurinn í dag var ábyggilega sá skemmtilegasti síðan ég kom hingað, og reyndar ekkert ábyggilega - hann var það! Ég leyfði mér nefnilega að eyða. Það hefur ekki gerst hingað til og mun eflaust ekki gerast aftur í bráð.

Innkaupalistinn er eftirfarandi:

Taska, €49
Vekjaraklukka, €79
Peysa, €89
Linsur, €39

Samtals: €256

Það er kannski ekki afsakanlegt að eyða hátt í 10.000 kr. í eitt stk. vekjaraklukku, en þá gerir maður sér ekki grein fyrir öllum þeim möguleikum sem hún hefur upp á að bjóða! Hún er sko á engan hátt venjuleg. Það er ekki skerandi hljómur sem rýfur þig úr svefninum, heldur hægt og bítandi byrjar ljós að skína, skærara og skærara, svo að það er einsog maður vakni við sólarljósið, endurnærður. Ég ber miklar væntingar til þessarar vekjaraklukku! Hitt er að öllum líkindum afsakanlegt.

Ég ákvað það að ég skyldi á engan hátt njóta lífsins fyrr en að ég fyndi íbúð. Svo að fram þessu hef ég nánast bara haldið mér innan 19. hverfisins í París á hinu skelfilega Hotel Terminus. Metrostöðin sem ég nota heitir eftir gömlu sovétborginni Stalíngrad. Segir það ekki allt sem segja þarf? Ég hef talið þrjá kakkalakka og tvær pöddur sem ég hef ekki enn fengið skýringar á hverjar eru. Samt sem áður er herbergið tiltölulega hreint og á allan hátt betra en það sem ég gisti á fyrstu nóttina. Þar var herbergið á sjöundu hæð og með engri lyftu! Ég var með eina stóra tösku sem vóg 40 kg. og handfarangur upp á ca. 10. 40 kg. hljóma kannski ekki mikið, en að bera þau upp tröppu fyrir tröppu í 25°C hita er hægara sagt en gert! Það var svo ekki vellíðan sem tók við þegar að herberginu var komið. Aldrei eins mikla reykingastybbu hafði ég á minni ævi fundið! Ég var allavega viss um að eyða þessum fyrsta degi í að hvíla mig, heldur að leita að einhverjum öðrum gististað.

Þá tók við sleitulaus íbúðarleit. Ég setti mér hámark upp á €500 pr/mánuð, en ég var fljótur að hækka það þegar ég sá að verkið var nánast ómögulegt. Ég hringdi á ótal staði og alls staðar var búið að leigja út. Ég fór meira að segja til YMCA en þar var líka fullt... sem betur fer.

Loksins kom þó röðin að mér. €700 á mánuði, 35 m2. Gríðarlega dýrt, en því er tekið fegins hendi! Ibúðin er staðsett í frábæru hverfi - 11. hverfi, nálægt Bastillunni og reyndar eiginlega alveg í miðbænum. Og hún er með þvottavél. Annars myndi það kosta um ca. €10 að þvo í hvert sinn. Svakalegur sparnaður þar.

Annars var ég núna að stilla nýju vekjaraklukkuna og mér til mikillar armæðu er ljósaperan sprungin! Það sem ég þarf að þola!