þriðjudagur, 31. mars 2009

Hjólaferð og Disneyland

Þar sem að það er svo langt síðan að ég hafi skrifað einhvern texta hér, þá er mikið að fara yfir. Þess vegna munu smáatriðin eflaust verða færri.

Á sunnudaginn 23. mars fórum við allmörg í hjólatúr í Bois de Boulogne, sem þýðir einfaldlega Boulogne skógur. Við leigðum hjól við munna skógsins á €10 og héldum okkar leið. Þetta var fallegur dagur og hitinn góður. Ágætt svona fyrir það veðravíti sem við þurftum að þola vikuna eftir; hita allt niður í 6°C og rigningarúða annað slagið!

Við borðuðum snarl við manngerðan foss, sem mér fannst reyndar frekar misheppnaður. Stuttu síðar héldum við tilbaka. Það sem mér fannst merkilegt var að allan þann tíma sem við hjóluðum um garðinn frá hjólaleigunni, að hjólaleigunni, hjóluðum við niður í mót. Við þurftum aldrei að strita og púla eða fara upp brekkur. Að því er ég kemst næst, þá á þetta ekki að vera mögulegt, svo að einhverjir ótrúlegir (en nytsamlegir) galdrar hafa greinilega verið viðhafðir við hönnun garðsins.

--
Á laugardaginn var fórum við Natalka, Kristína og vinkona hennar frá Noregi, Unni-Gabríella, í Disneyland. Það var eitt stórt ævintýri frá upphafi til enda. Unni hefur búið allt sitt líf í Noregi, en er upphaflega fædd í Chíle. Hún kynntist Kristínu í menntaskóla í Ósló. Það var hálfsérkennilegt hversu fljótt henni tókst að eiga áreynslulaus samtöl við okkur hin, bláókunnugt fólk. Það er sérstakur hæfileiki sem ég vildi gjarnan búa yfir.

Við fórum í langflest tækin, byrjuðum reyndar á því sem, að ég held, á að vera það skelfilegasta. Mér fannst það þó ekkert merkilegt. Kannski vegna þess að ég loka bara augunum og bíð þangað til ósköpin eru staðin yfir... og reyni jafnvel að hindra heila minn um að hugsa um að teinarnir munu losna.

Veðurspáin hafði verið slæm, sem ég var reyndar ánægður með. Því eðli málsins samkvæmt ættu færri að mæta þess vegna. En svo reyndist alls ekki. Veðrið var ekki með besta móti, en nógur var mannsskarinn. Stuttu eftir hádegi vorum við Kristína ein á Main Street í Disneylandi að bíða eftir hinum, og allt í einu byrjar hann að hella af himnum ofan. Við stöldrum ekki lengi við og drífum okkur inn í næstu búð. Þar fundum við rándýrar, skærgular regnslár sem kostuðu €8! Við keyptum þær og flýttum okkur út þangað sem að við áttum að hitta stelpurnar. Þær komu á endanum og við hreykin af okkar nýjustu fjárfestingum, en að sjálfsögðu, einsog hendi væri veifað, stytti upp og sólin byrjaði að skína.

(Myndir koma síðar)

föstudagur, 20. mars 2009

Glíman við France Telecom

Það var ekki beint þægileg tilfinning að opna umslagið frá Orange France Telecom nú í vikunni og sjá símreikning upp á tæpar 1.300 evrur, eða 198 þúsund krónur! Hvernig gat þetta staðið? Ég fór nú að hugsa tilbaka þegar ég skrifaði undir samninginn. Maðurinn bauð mér tilboð: Endalaus símtöl til Íslands o.fl. á 7 evrur, fyrir utan hið staðlaða mánaðargjald.

Heilinn minn fór fljótt að vinna að lausnum og lá beinast við að loka bankareikningnum og flýja heim. Ég fór að sofa það kvöldið í hálfgerðri depressjón, en fékk aukinn eldmóð eftir að ég talaði við sögukennara minn. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri sígerettuframleiðandans Philip Morris í Frakklandi áður en hann lét undan samviskunni og keypti sér vínekru í Bordeaux og fór að kenna. Hann sagði mér á hverju ég ætti að byrja, og síðan skref fyrir skref, hvernig ég ætti að tækla þetta. Að lokum sagði hann mér að hann þekkti lögfræðing sem gæti tekið þetta að sér.

Það reyndist ekki þurfa mikið til, sem kom mér svo sannarlega á óvart, því öllu þarf maður að berjast fyrir í Frakklandi. Ég einfaldlega hringdi í þjónustuverið og sagði þeim frá mínum vandamálum og minnsta málið, þetta var leyst á örfáum mínútum. Ég átti ekki eitt aukatekið orð.

---

Veðrið í dag: 18°C, sól.

Mótmæli, að vanda

Af síðustu þremur verkföllum sem hafa verið hér, hef ég aldrei fundið fyrir þeim og reyndar ekki vitað af þeim, fyrr en ég las það á mbl.is. Í dag var víst eitt slíkt og eru menn úr öllum geirum að mótmæla alls kyns hlutum. Ég held að stærst sé að sumir voru að upplifa frönsku útgáfuna af HB Granda fíaskóinu, þegar stærsta olíufélag Frakka skilaði methagnaði, en er að segja upp starfsfólki vegna árferðis. Ég sá einhver mótmæli við óperuhúsið í hverfinu og tók nokkrar myndir af því.
En talandi um Bastilluóperuna, þá held ég að við megum una vel við að sitja ekki uppi með álíka skrýmsli við Reykjavíkurhöfn sem kostaði Parísarbúa 66 milljarða króna árið 1989. Tæpir 20 ma.kr. fyrir hina glæsilegu Tónlistar- og ráðstefnuhöll sem mun rísa, tel ég bara vel sloppið. Að þetta ferlíki skuli hafa verið valið úr hópi 756 tillaga er ofar öllum mínum skilningi.

sunnudagur, 15. mars 2009

Öðruvísi mars með meiru

Það verður að kallast stórkostlegt að geta vaknað þann 15. mars og horft út á heiðskýran himinn í 15°C hita. Allt verður frábært og ekkert skiptir máli. Meira að segja þynnkan hverfur á augabragði. Það er merkilegt hvað maður stjórnast af veðrinu!

Ég vaknaði við að síminn hringdi uppúr kl. tvö, en það var bara ágætt. Natalka Tanner bauð mér að koma með sér í Lúxemborgargarðinn, þar sem að veðrið væri svona gott. Liggja þar í leti þangað til um kvöldmatarleyti og borða eitthvað gott á veitingastað í grenndinni. Við buðum Norðmönnunum Krístínu Daae Smedsvig og Katrínu Tysnes með.

Garðurinn var troðfullur. Hann var það troðinn að það var erfitt að komast inn. Allir stólar voru teknir og að sjálfsögðu mátti ekki sitja á grasinu. Við létum það að litlu leyti á okkur fá, og sátumst á steypuklumpa við vatnið þar sem börnin voru að leika sér með litla seglbáta.

Um kvöldið borðuðum við rándýran mat á indverskum veitingastað sem var alls ekki minn fyrsti kostur. Ég var ekki ánægður, en ég faldi það vel.

sunnudagur, 1. mars 2009

... og það var ekki lengi að fara!

Þrjá, kannski fjóra daga, fengum við af sól og hita yfir 20°C. Í dag tekur við kuldi og rigning, og ekki trúi ég því að það sé skárra í París, en þangað fer ég þriðjudagskvöld.

Í gær komu mæðginin (Alfreda og Pierre) heim frá Berlín og þurfti ég því, því miður, að flytja mig úr hinu þægilega hjónaherbergi í eitt af herbergjunum á efri hæðinni. Ég verð að segja, ég var orðinn vel vanur því að vera hérna eins míns liðs. Pierre stoppaði ekki lengi og keyrðum við hann í skólann í morgun, þar sem hann reyndar verður næsta mánuðinn. Hið athyglisverða við skólann sem hann er í, er að hann er eingöngu fyrir feita krakka. Allan sá skara offeitra krakka hef ég ekki séð saman komna á einum stað áður.

Annars er lítið um að vera. Ég er farinn út að skokka.