þriðjudagur, 9. desember 2008

Blogg

Mér sýnist blogg-andinn vera farinn. Ég mun gera hlé á þessu öllu saman.

mánudagur, 8. desember 2008

Jólin

Já, nú er dagurinn runninn upp, dagurinn sem flestir hafa beðið eftir! Það er komið að því að ég muni loksins opinbera jólabókalistann minn. Ég talaði við Benedikt Kristjánsson, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bókaútgefenda, og var hann svo almennilegur að senda mér Bókatíðindi hingað út. Í gær komu þau svo.

Hér er svo listinn:

Í boði hins opinbera - Stefán Gunnar Sveinsson
Andi Reykjavíkur - Hjörleifur Stefánsson
Hafskip í skotlínu - Björn Jón Bragason
Nýja Ísland - Guðmundur Magnússon
Saga af forseta - Guðjón Friðriksson

Óvenju fáar bækur sem mig langar í þessi jólin.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Kuldaboli hrjáir mig

Ég hlustaði á fyrirlestur í morgun um stofnun Bandaríkjanna samanborið við stofnun Evrópusambandsins, og þá var helst verið að benda á mistök sambandsins. Margt af þessu var virkilega áhugavert, en þó var eitt sem stóð upp úr sem að mínu viti hefur ekki fengið neina umfjöllun hér í Frans. Stjórnarskrá ESB var lögð í dóm kjósenda fyrir tveimur árum held ég og þar var hún felld. Nú í ár var hún hins vegar samþykkt af franska þinginu og forseta Sarkozy nánast án umfjöllunar eða kosningar. ESB er ekki lýðræðislegra en svo!


Um helgina fór ég í reiðtúr með Hestaklúbbinum, en vegna slæmrar mætingar var ákveðið að hafa þetta ekki dagsferð, heldur einungis eftir hádegi. Eftir á að hyggja var ég mjög feginn, enda skreið ég upp í rúm að degi loknum.

Fyrir túrinn þá tókst mér af einhverjum ástæðum að missa af tveimur símtölum frá formanni klúbbsins (Sébastian Zablocki) sem ég grét þó engan veginn. Ég stefndi bara á það að mæta þar sem mæting stóð til á hinum fyrirfram ákveðna tíma. Það endaði þó með því að ég kom á lestarstöðina í um klst. fjarlægð frá París algerlega einn og enginn þar í nánd. Ég gat ekki hringt þar sem að ég átti ekki inneign á símann. Það reddaðist þó á endanum.

Hesturinn sem ég fékk var glæsilegur, jarpur á litinn (ef einhver veit hvað það er) og hrikalega stór! Við fórum nokkurra kílómetra túr um sveitina, en þessa sveit er ekki hægt að kalla neitt spes miðað við landslagið heima. Vissulega er mikið um tré, en öll svæðin hafa verið snert, ef ég get gert mig skiljanlegan.

Mér fannst reiðtúrinn vera óskaplega mikið brölt. Alls ekki þægilegt, og ég gat varla beðið eftir því að túrinum lyki. Hossugangurinn var meira en það sem eðlilegt getur talist og reyndar var veðrið ekki til að bæta þetta. Þarna saknaði ég tölts íslenska hestsins. Ég held að með þessu sé búið að sanna það að hann sé besti hestur í heimi!

Þegar við komumst inn í hlýju „klúbbhússins“, þar sem mér var oftar en ekki litið til píanósins (sannfærður um mína hæfileika á því sviði), borðuðum við ávexti í súkkulaðibaði. Sem kann að hljóma vel en um þetta leyti var klukkan sjö, hálfátta, svo að löngunin var ekki í einhverja ávexti heldur einhverja kjarngóða fæðu!

Ég átti þó erfitt með að fela undrun mína á því sem gerðist næst. Formaður klúbbsins, Sébastian, tók upp sígarettu og lítinn loftþéttan plastpoka af „grasi“, og fór að vefja sér jónu. Ég var kannski ekkert endilega hissa á því að hann stundaði þetta, enda þykist ég vera af yngri kynslóðinni, heldur hversu opinskár hann var. Það var einsog þetta væri það eðlilegasta í heimi. Fólki finnst ég reyndar vera bara einhver bjáni þegar ég minnist á þetta. Ég hef greinilega misst af einhverri þróun.

---
Svo í dag hafði Ellý Ármanns frá Bylgjunni samband við mig og fékk mig í viðtal vegna mótmælanna 1. des. sl. Fréttin er víst líka á Vísi.is. Hallgrímur Helgason hafði víst bent henni á einhverjar myndir sem ég tók af mótmælendunum. (Ég vona að fólki ofbýður ekki þessi name-dropp).

Mér fannst reyndar myndin sem ég hafði hér að neðan vera miklu flottari en sú sem hún hafði síðan í fréttinni á Vísi.

mánudagur, 1. desember 2008

Mótmælin í París

Þau voru miklu skemmtilegri en ég bjóst við, mótmælin sem skipulögð voru í dag kl. 14 fyrir framan sendiráð Íslands. Ég taldi 22, en tölum ber ekki saman og engar opinberar tölur hafa verið gefnar út. Þetta fór allt friðsamlega fram, enda held ég að við erlendu Íslendingar höfum misst af þeirri þróun um harkaleg mótmæli sem hefur orðið heima, og til vitnis um það var engum eggjum kastað á skrifstofur sendiráðsins. Þá var enginn handtekinn, þrátt fyrir að lögreglan mætti á svæðið.

Ég mætti þarna akkúrat 15 mín. of seint, einsog manni er kennt að gera í París. Ég held að reglan sé hálftími, klukkutími á Íslandi, og reyndar meira en það hjá sumum sem ég þekki. Og á þeirri stundu var fólk að hrópa einhver slagorð og glósur á ríkisstjórnina, og ég tók að einhverju leyti þátt, allavega eins mikið og ég gat. Næst byrjaði fólk að syngja ættjarðarljóð og þá kom ég sjálfum mér á óvart. Ég kunni bara ekki nokkurn skapaðan texta. Hverjum get ég kennt um það? Ég söng hátt og skýrt þegar Öxar við ána var sungið en allt annað (og þmt. þjóðsönginn) kunni ég ekki!

Tómst Olrich kom og heilsaði upp á okkur og tveir héldu mjög góðar ræður. Eftir öll þessi ósköp fórum við á kaffihús í grenndinni og var það mjög gaman. Það var ákveðinn léttir að vera innan um einhverja Íslendinga eftir allan þennan tíma! Ég vona að það muni skipuleggjast eitthvað í kringum þennan Íslendingahóp og hann halda áfram að hittast.

Það kom mér sérstaklega á óvart hversu lítilfjörlegt og ótilkomumikið Íslenska sendiráðið er. Menn eru alltaf að tala um bruðl í utanríkisþjónustunni. Ekki var neitt slíkt að sjá þarna. Það lá við að ég skammaðist mín. Skokkhringurinn minn liggur meira að segja þarna framhjá og ég hafði aldrei tekið eftir neinu tengt Íslandi við þessa götu; enginn fáni, varla nein ummerki. Það sést kannski hvað ég er að meina á þessari mynd:

Þarna má sjá glitta í starfsfólk sendiráðsins húka í einhverri risíbúð sem á að vera hið glæsilega Sendiráð íslenska lýðveldisins. Kannski við hæfi í dag.