laugardagur, 2. maí 2009

Ferðalög - Bergerac, Sarlat, o.fl. (seinni hluti)

Seinni helgi ferðalagsins um Suðvestur Frakkland kom mjög skemmtilega á óvart. Einsog ég hafði kviðið fyrir henni! Ég tók lestina frá Bordeaux til Bergerac, sem tók uþb. eina klst. og á áfangastað spurðist ég fyrir um hótelið sem ég skyldi gista á um nóttina. Þangað gekk ég svo með allan farangurinn og kom honum fyrir inni á herbergi. Til að nýta tímann ákvað ég að ganga um miðbæinn í sólinni, á meðan ég velti vöngum yfir því hvernig þessi helgi ætti eiginlega eftir að verða. Ég áttaði mig nefnilega á einu: Ég hafði aldrei nokkurn tímann verið einn með Melanie! Áður var það alltaf ég, Melanie og Paul.

Ég gat að litlu leyti meðtekið það sem var að sjá í bænum vegna þessa klandurs sem ég hafði komið mér í. Og það versta var að það var að öllu mér að kenna. Upphaflega var skipulagt að ég og Melanie skyldum heimsækja Paul helgina 24. apríl, en síðan kom það upp á að Paul þurfti að vera á Írlandi nákvæmlega þessa helgi. Melanie hafði þá keypt miðana og vildi alls ekki breyta þeim þar sem að hún þyrfti að borga heiftarlega í refsikostnað. Til að gera langa sögu stutta, þá kom það í minn hlut að ákveða hvort hún skyldi breyta miðanum sínum og heimsækja Paul á sama tíma og ég, eða verja helginni bara með mér og ferðast eitthvað um svæðið. Ég held að það sé nokkuð ljóst hvað úr varð!

Cyrano de Bergerac

Þegar Melanie kom sátumst við við sundlaugarbakkann á hótelinu og skipulögðum gróflega helgina. Sólin skein og hitinn var steikjandi, en það var bannað að fara í laugina. Eftir það gerðum við langan túr um bæinn og átum þar og drukkum á yndislegu torgi með útsýni yfir styttu af hinum ódauðlega Cyrano de Bergerac. Kvöldið sjálft endaði í nokkurs konar skyndistormi þar sem starfsfólk veitingastaðarins þurfti að planta sér víðsvegar um útitjöldin og halda þeim niðri svo að þau færu ekki á flug.

Starfsfólkið stendur yfir síðasta parinu við snæðing

Næsti dagur tók á móti okkur með rigninardembu og hálfgerðum hrolli. Þá var að grípa í „plan b“ og við héldum í hellaleiðangur. Grotte de Pech Merle varð fyrir valinu. Þetta er gríðarstór hellir sem tók okkur heilan klukkutíma að ganga um. Um hann allan er fjöldinn af málverkum, 16 - 25 þúsund ára gömlum.

Síðan áður en ferðinni lauk keyrðum við um ýmsa bæi, kastala og virki. Þar stendur hæst bærinn Sarlat og Forteresse de Beynac. Sarlat er miðaldabær með 10 þúsund íbúa sem hefur haldið sér nánast eins í gegnum aldirnar. Það er einsog að fara aftur í tímann að ganga um miðbæ Sarlat. Þessi þriðji hluti ferðalagsins um páskana reyndist svo eftir allt saman verða sá langskemmtilegasti. Ég vona að Lundúna- ferðin um miðjan maí komist í hálfkvisti við þessa.

Sarlat

Beynac virkið
---
Ástæðan fyrir því að ég þurfti að bregða mér til Bordeaux var að ég þurfti að hjálpa Katherine Köhler með tölvuna sína. Hún komst víst ekki inn í tölvupóstinn sinn. Úr því varð ágætis ferð til Bordeaux.

Á mánudaginn hefjast prófin og verða þau alla daga næstu viku. Grétar og Embla koma á föstudaginn. Ég fer til London þann 13 þm. og Sandra og Gísli koma 21. Þetta geta ekki talist mikil rólegheit.

Engin ummæli: