laugardagur, 2. maí 2009

Ferðalög - Bergerac, Sarlat, o.fl. (seinni hluti)

Seinni helgi ferðalagsins um Suðvestur Frakkland kom mjög skemmtilega á óvart. Einsog ég hafði kviðið fyrir henni! Ég tók lestina frá Bordeaux til Bergerac, sem tók uþb. eina klst. og á áfangastað spurðist ég fyrir um hótelið sem ég skyldi gista á um nóttina. Þangað gekk ég svo með allan farangurinn og kom honum fyrir inni á herbergi. Til að nýta tímann ákvað ég að ganga um miðbæinn í sólinni, á meðan ég velti vöngum yfir því hvernig þessi helgi ætti eiginlega eftir að verða. Ég áttaði mig nefnilega á einu: Ég hafði aldrei nokkurn tímann verið einn með Melanie! Áður var það alltaf ég, Melanie og Paul.

Ég gat að litlu leyti meðtekið það sem var að sjá í bænum vegna þessa klandurs sem ég hafði komið mér í. Og það versta var að það var að öllu mér að kenna. Upphaflega var skipulagt að ég og Melanie skyldum heimsækja Paul helgina 24. apríl, en síðan kom það upp á að Paul þurfti að vera á Írlandi nákvæmlega þessa helgi. Melanie hafði þá keypt miðana og vildi alls ekki breyta þeim þar sem að hún þyrfti að borga heiftarlega í refsikostnað. Til að gera langa sögu stutta, þá kom það í minn hlut að ákveða hvort hún skyldi breyta miðanum sínum og heimsækja Paul á sama tíma og ég, eða verja helginni bara með mér og ferðast eitthvað um svæðið. Ég held að það sé nokkuð ljóst hvað úr varð!

Cyrano de Bergerac

Þegar Melanie kom sátumst við við sundlaugarbakkann á hótelinu og skipulögðum gróflega helgina. Sólin skein og hitinn var steikjandi, en það var bannað að fara í laugina. Eftir það gerðum við langan túr um bæinn og átum þar og drukkum á yndislegu torgi með útsýni yfir styttu af hinum ódauðlega Cyrano de Bergerac. Kvöldið sjálft endaði í nokkurs konar skyndistormi þar sem starfsfólk veitingastaðarins þurfti að planta sér víðsvegar um útitjöldin og halda þeim niðri svo að þau færu ekki á flug.

Starfsfólkið stendur yfir síðasta parinu við snæðing

Næsti dagur tók á móti okkur með rigninardembu og hálfgerðum hrolli. Þá var að grípa í „plan b“ og við héldum í hellaleiðangur. Grotte de Pech Merle varð fyrir valinu. Þetta er gríðarstór hellir sem tók okkur heilan klukkutíma að ganga um. Um hann allan er fjöldinn af málverkum, 16 - 25 þúsund ára gömlum.

Síðan áður en ferðinni lauk keyrðum við um ýmsa bæi, kastala og virki. Þar stendur hæst bærinn Sarlat og Forteresse de Beynac. Sarlat er miðaldabær með 10 þúsund íbúa sem hefur haldið sér nánast eins í gegnum aldirnar. Það er einsog að fara aftur í tímann að ganga um miðbæ Sarlat. Þessi þriðji hluti ferðalagsins um páskana reyndist svo eftir allt saman verða sá langskemmtilegasti. Ég vona að Lundúna- ferðin um miðjan maí komist í hálfkvisti við þessa.

Sarlat

Beynac virkið
---
Ástæðan fyrir því að ég þurfti að bregða mér til Bordeaux var að ég þurfti að hjálpa Katherine Köhler með tölvuna sína. Hún komst víst ekki inn í tölvupóstinn sinn. Úr því varð ágætis ferð til Bordeaux.

Á mánudaginn hefjast prófin og verða þau alla daga næstu viku. Grétar og Embla koma á föstudaginn. Ég fer til London þann 13 þm. og Sandra og Gísli koma 21. Þetta geta ekki talist mikil rólegheit.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Óvænt

Ég flýg til Bordeaux í kvöld. Útskýri síðar.

mánudagur, 27. apríl 2009

Ferðalög - Riberac, Bordeaux (fyrri hluti)

Páskafríið á Svæði C í Frakklandi (París, Bordeaux ofl.) hófst þann 10. apríl sl. Landinu er nefnilega skipt niður í þrjú svæði þar sem mismunandi dagar skiptast niður í jafnmarga frídaga. Þannig er allt landið ekki í fríi á sama tíma og þar með stíflast ekki allir þjóðvegir, lestarstöðvar, flugvellir osfrv. Ég átti nokkra daga til að liggja í leti í París áður en hið „mikla“ ferðalag mitt um suðvestrið hófst.

Paul tók á móti mér í Angoulême upp úr kl. hálfþrjú, en þó reyndar af algerri tilviljun. Hann hafði sagt mér að hann yrði eitthvað seinn og það gæti jafnvel farið svo að ég þyrfti að bíða í einhvern klukkutíma. Vitandi það að Paul myndi hringja í mig þegar hann kæmi, ákvað ég að gera stuttan túr um bæinn, en svo ljótur var hann að ég sneri við stuttu síðar. Á nákvæmlega sömu stundu og ég kem tilbaka á lestarstöðina kemur Paul. Síminn hans var þá týndur og hefði ég því að öllum líkindum þurft að bíða alllengi eftir símtali, röltandi um bæinn.

Það var lítið gert heima hjá Paul sem væri frásögu færandi. Það væri helst hægt að flokka helgina sem hreina og beina afslöppun. Við borðuðum góðan mat og fórum lítið langt frá bænum. Þó fórum við stutta ferð um Cognac-héraðið og ætluðum að skoða Hennessy koníakframleiðandann, en þar var lokað um helgar. Við fórum þá í skoðunarferð um vínekrur og framleiðslusali Remy Martin. Sem að mínu mati var hálfgert frat. Hálfur túrinn fór í að horfa á eitthvað myndband um framleiðslu koníaks og ræður um að Remy Martin væri stærst og best að öllu leyti.

Heimilið þeirra var, einsog í fyrra, himnaríki líkast. Húsið sjálft er staðsett við miðbæjartorg Riberac. Það skiptist í þrjár hæðir sem gera samtals ábyggilega 500 - 700 fermetra. Herbergið sem ég svaf í var stærra en öll stúdíóíbúðin mín í París.

Sveitin fyrir utan Riberac.

Á sunnudagskvöld kom ég til Bordeaux og sótti Alfreda mig á St. Jean lestarstöðina. Það var svo mikið af fólki heima hjá henni að ég neyddist til að sofa í sófanum í stofunni. Næsta dag fékk ég að flytja heim til Katherine Köhler, vinkonu Alfredu. Það var í fyrsta skiptið sem ég gisti heima hjá henni og var hún enginn eftirbáti Pauls í Riberac. Hún bjó um mig í góðu herbergi með rafstýrðu rúmi og sér baðherbergi. Þar að auki býr hún ekki á allslæmum stað, við Garonne-ánna, steinsnar frá gamla bænum.

Heima hjá K. Köhler.

Ég hafði ekki ætlað mér nein stórræði í þessari ferð. Hún snerist fyrst og fremst um að hitta fólkið aftur. Ég tók þó að mér að vinna svolítið í garðinum hjá Alfredu. Ég reytti ekki bara arfa, heldur gróðursetti ég tvo rifsberjarunna og rabbabara.

Ég, við störf.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Sacré-Coeur og páskafrí

Eftir nokkuð leiðinlegan dag (mánudag sl.) með norska fólkinu í Cité-garðinum við háskólasetrin, hugsaði ég með miklum vonbrigðum til fyrsta dags páskafrísins. Við sátum þar og spjölluðum í sólinni eða lásum, en einhvern veginn var ég í engu skapi fyrir það. Ég vildi gera eitthvað skemmtilegt!

Úr hópnum slitnaði um fjögurleytið, eða kannski var klukkan orðin fimm. Ég fór því einn að Les Halles og ákvað að fara á bíó. Horfði á einhverja hundleiðinlega mynd, en mér var fljótt bjargað frá henni. Kristína, sem hafði hjálpað mér með símtöl mín til Noregs í síðustu viku, hringdi og vildi gera eitthvað. Ég beit fljótur á agnið og hún ætlaði að koma niður í bæ. Natalka hafði þá bæst í hópinn og við héldum eftir langa göngu að Montmartre hverfinu, sem er í norður París.

Þar borðuðum við kvöldmat á stórkostlegum veitingastað (Le Relais Gascon) sem við höfðum fundið nokkru áður. Ég fékk mér lauksúpu. Eftir þennan frábæra kvöldmat, og gott vín, tókum við stefnuna á Sacré-Coeur.

Þar tylltum við okkur í tröppunum og hlustuðum á götulistamenn syngja, drukkum bjór sem var seldur þarna og horfðum á fjöllistaatriði.

Þessi ljósmynd nær á engan hátt að sýna stemninguna sem ríkti

Í dag var minna um að vera, en við gengum mikið, ég ásamt norska fólkinu og við enduðum kvöldið í eldhúsi norska hússins í háskóla- görðunum. Á meðan ég skrifa þennan pistil, ligg ég uppi í rúmi og neyðist til að hlusta á hroturnar úr Josiane sem koma frá stofunni, sem minnir öllu heldur á ljónsöskur alla leið neðan frá Afríku. Þrír dagar þangað til hún fer.

Óperan og afmæli

Frá 3. apríl hefur leigjandi íbúðarinnar (Josiane Puig), sem ég leigi síðan af, verið hér og sofið í stofunni sem hafði fram að því verið læst. Það hefur gengið upp og ofan, en miðað við aðstæður bara nokkuð vel að mínu mati. Hún vakti mig um daginn og sagðist vera með miða í Óperuna þá um kvöldið. Ég var mjög ánægður með það, enda aldrei farið áður.

Óperan sem sjá átti var Makbeð eftir Verdi. Augljóst meistarastykki. Við klæddum okkur vel upp, en ég þó ekki alltof fínt þar sem að ég átti að mæta í surprise-partý eftirá. Þvílík og önnur eins leiðindi hef ég aldrei upplifað áður! Ég segi það alveg satt. Ég gekk með jákvæðan hug til leika, bjóst við hinu besta, en ég gat ekki einu sinni logið því að sjálfum mér að þetta ætti virkilega að kallast skemmtun. Og það versta var, að undir lokin í seinni hluta sjóvsins þá fannst mér einsog þetta væri við það að enda ca. tíu sinnum, en alltaf þurfti einhver nýr að koma á svið, tilbúinn að taka við keflinu þaðan sem frá var horfið!

Loksins, eftir öll þau árþúsund sem þessi sýning varði, var okkur hleypt út í frelsið. Mér þótti þessi veisla sem ég var að fara í ákaflega spennandi þar sem að hafði aldrei upplifað: „Surprise!“ Fyrir utan þó eitt skipti í fimmta bekk þegar Ragga kennari átti afmæli og allur bekkurinn tók sig saman og faldi sig inni í stofu. Það var þó heldur misheppnað og kom henni alls ekki á óvart. Hvað um það, þetta var kvöld nýrra uplifanna.

Eftir langan gang frá Bastillunni að Montmartre götu fann ég heimilis- fangið og gekk upp sex þröngar og gamlar hæðir til að komast í veisluna sem var haldin í þó æðislegri penthouse-íbúð sem nokkrir stóðu í að leigja. Með minni heppni, sem endranær, var afmælis- barnið komið og mómentið farið! Kvöld nýrra upplifanna hvað!

Andartakið, mér fjarverandi

föstudagur, 10. apríl 2009

Fall er fararheill

Páskafríið hófst í dag á föstudaginn langa, og langur verður hann! Á síðustu dögum hefur mér klæjað ægilega í vörina og vinstra augnlok og ég hef óttast að þetta sé ofnæmið sem skýtur upp kollinum annað slagið. Í dag og í gær hef ég svo sannarlega fengið staðfestingu á því. Það er orðið mjög sjáanlegt á augnlokinu og býst ég við því að það fari að breiðast út á allra næstunni. Hörmuleg byrjun á langþráðu fríi sem átti að verða hin mesta skemmtun.

Ég veit ekki hvað það var sem smitaði mig og ég hef enga hugmynd. Venjulega hafa það verið plástrar sem fara svona með húðina mína, en það getur ekki verið í þetta sinnið.

miðvikudagur, 1. apríl 2009

Þriðjudagur í París

Varfærnislega held ég að ég megi kalla daginn í dag fullkominn. Þó það sé alls ekki af því hann var eitthvað merkilegur eða óvenju skemmtilegur. Veðrið var bara svo yndislegt og mér fannst allt ganga einsog í sögu. Ég vaknaði eldsnemma (uppúr kl. átta) við sólina og hóf morgunrútínuna áður en ég hélt í skólann í ræðumennskutíma kl. 10.

Útsýnið heima kl. 20:45. Ekkert voða merkilegt.

Það var skemmtilegur tími, einsog alltaf, og var okkur sagt að byrja að undirbúa ræðuna sem verður hið hálfgerða lokapróf. Hann tilkynnti svo að ég skyldi verða með þeim fyrstu til að flytja hana í næstu viku. Þetta verður aðeins erfiðara en fyrri skiptin þarsem að við eigum að semja ræðuna sjálf, en áður höfum við einungis þurft að finna einhverja góða ræðu til að flytja. Í síðustu viku ákvað ég að flytja ræðu Bills Clintons þar sem að hann biðst afsökunar á ruglinu í kringum Monicu Lewinsky. - Ég fékk ágætan hlátur fyrir það. - En í þessari ræðu eigum við að hrósa eða styðja einhvern eða eitthvað sem okkur er etv. hjartnæmt. Ekki hef ég hugmynd um hvað það gæti verið!

Eftir tímann fór ég ásamt Kristínu í Buttes-Chaumont garðinn, þar sem við átum hádegismat og lágum í leti í sólinni. Ég náði m.a. að lesa heilan fjórðung úr bókinni um manninn sem skein skærar en kóngurinn: „The Man Who Outshone the King“. Stórkostlega skemmtileg bók um Nicholas Foucquet, sem náði á ævi sinni að rísa til gríðarlega valda innan Frakklands, en varð síðan fangelsaður vegna afbrýðissemi konungsins og... ég er ekki kominn lengra. Mig grunar að hann verið tekinn af lífi. Eftir þessa frábæru nokkurra klukkustunda hvíld fór ég í hagfræði og hélt heim.

Ég var staðráðinn í því að ljúka öllum farmiðakaupum í dag. Ég hafði nokkrum sinnum farið í SNCF-búðirnar, sem eru hálfgerðar ferðaskrifstofur franska lestafélagsins... en alltaf rokið beinustu leið út aftur, því fjöldinn þar inni var óbærilegur.

Í dag skyldi ekkert heita óbærilegur fjöldi. Ég gekk inn og leit yfir mannfögnuðinn og sá þar innst inni tvær manneskjur, karlmann og konu, vinna hægt og rólega að því að sinna öllum skaranum. Ég tók númer og á stóð: 249. Ég þorði varla að lýta á tölvuskjáinn sem sýndi hvert þau voru komin. 202. 46 manns á undan! Sem betur fer tók ég Nicholas Foucquet með mér, svo að ég settist niður og fór að lesa. Allt gekk vel... ég þurfti að breyta einum miða og kaupa tvo í viðbót og ég þurfti lítið sem ekkert að borga í viðbót, ekki nema €26,90. Svo var biðin nú ekki alslæm. Bara 2 klst. og 20 mín!

Svona hljóðar ferðaplanið yfir páskana:

17. apríl, París - Angouleme (€43,50). Þar tekur Paul McQuillan á móti mér:

19. apríl, Angouleme - Bordeaux (€11,20). Í þetta sinnið mun ég gista heima hjá Catherine Köhler, sem verður mjög sérstakt reikna ég með. Ég hef alltaf gist hjá Alfredu, en hún er með gesti yfir páskana, svo að þetta varð úrlausnin.

24. apríl, Bordeaux - Bergerac (€7,30). Þar ætla ég að hitta Melanie frá Bretlandi. Við munum gista þar á einhverju hóteli í eina nótt, en leigja síðan bíl og keyra hingað og þangað.

26. apríl, Bergerac - Bordeaux - París (€66,40). Fimm tíma ferðalag, en sem betur fer á fyrsta farrými.