laugardagur, 28. febrúar 2009

Vorið er komið... allavega hér

Undanfarnir dagar hafa verið stórkostlegir. Aldrei hef ég upplifað slíkt vorveður þegar enn er febrúar. Sólin hefur skinið og á einum hitamæli sá ég 21°C, þó ég taki því með fyrirvara. Ég hef ekki verið að gera heilmikið, og raunar bara nánast ekki neitt, en þannig á það að vera í fríi. Ég tek mín frí mjög alvarlega. Þau eiga ekki að fara í vinnu utan vinnu. Ég hef þó verið að dunda mér við að taka til, nota bene í algerri afslöppun, og þreif þar að auki bílinn. Ekki það að ég sé góðmennskan uppmáluð. Ég býst við miklu þakklæti á móti.

Ég skutlaði Charlotte á verkstæðið svo að hún gæti sótt bílinn sinn. Hann var loksins tilbúinn eftir endalausar ferðir fram og tilbaka. Annað gerði ég ekki í dag.

Húsmóðirin kemur frá Berlín á morgun um kvöldmatarleytið.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Aðgerðaleysi í „sveitasælunni“

Dagarnir hér eru heldur fábreyttir, sem er kannski fyrir bestu. Ég veit það að ég mun snúa tilbaka að fullu endurnærður, sem vonanadi mun duga mér að næsta fríi í apríl. Ég kvaddi mæðginin og skutlaði þeim út á flugvöll á laugardaginn var og síðan þá hef ég rembst við að fylla daginn.

Í gær, sunnudag, gekk ég meðfram ánni ásamt fjölskylduvini fólksins, Catherine Köhler. Hún er tiltölulega nýkomin heim eftir að hafa eytt undanförnum mánuðum í Nýju - Kaledóníu, sem hún gerir hvern vetur. Hún var þó kölluð heim snemma í ár, því hún fékk heilablóðfall seint í janúar. Eftirköstin eru sem betur fer ekki mikil, nema að hún er í endurhæfingu til að ná sínum fyrri styrk og þjálfa göngulagið.

Í dag hitti ég dóttur konunnar sem ég gisti hér hjá (Charlotte), og reyndi að hjálpa henni með bílinn sinn sem hún klessti í vikunni. Hún er reyndar svolítið merkilegri en við hin, en hún er víst barónessan af Bordeneuve, og er hennar fulla nafn: Ann-Charlotte Speitel de Lart de Bordeneuve. Snobbið í mér tók sterkann kipp þegar ég frétti þetta.

Á morgun mun ég halda áfram hreingerningunni hér á heimilinu og hugsanlega fara í bíó.

Bordeaux, taka þrjú

Það var ekki hið auðveldasta að komast leiðar minnar hingað, enda hafði undirmeðvitund mín tekið í taumana og ákveðið að gera þetta svolítið spennandi. Ég hafði nánast beðið frá því um klukkna fjögur eftir skóla, þar til að tími var kominn til að halda mína leið á lestarstöðina, en lestin átti að fara 21:03.

Ég var að mestu leyti búinn að pakka og var að undirbúa iPodinn þegar að ég áttaði mig á því að klukkan væri tíu mínútur yfir átta! Og ég átti eftir að fara í gegnum allt neðanjarðarlestarkerfið að Montparnasse. Það var reyndar vel mögulegt, en ég hastaði mér út í heilmiklu stresskasti. Ég sagði við sjálfan mig: „Ég er að gleyma einhverju!“ Sem síðar átti svo auðvitað eftir að reynast rétt.

Ég tók sprettinn að Bastillunni þar sem ég skyldi taka neðanjarðarlestina, en þegar þangað var kominn vildi ég athuga á miðann klukkan hvað, nákvæmlega, lestin ætti að fara... en miðann vantaði. Þá hljóp ég einsog fætur toguðu með ferðatöskuna í eftirdragi. Hljóp upp hæðirnar fjórar og fann miðann, hljóp síðan tilbaka og velti því fyrir mér í heilmikilli angist, hvort fljótara það væri að taka metróið eða leigubíl. Ég endaði á því að taka leigubíl.

Klukkan var hálfníu, brottför eftir rúman hálftíma. Ég sagði leigubílstjóranum að hún færi eftir tuttugu mín. svo hann færi nú örugglega ekki að taka einhvern snúning kringum borgina til að næla sér í nokkrar aukaevrur. Á endanum hafðist þetta allt saman.

---
Það var eitt sem ég tók eftir. Maður hefur oft séð það í gömlum myndum þegar einhver kemur hlaupandi, seinn, og reynir að ná lestinni. Nær sá svo að hoppa upp í hana á ferð. Ég hélt að svoleiðis væri ekki hægt lengur, vegna allra öryggisreglna og sjálfvirkra hurða. En jú, mér þótti það áhugavert að sjá, að lestin tekur af stað og þegar hún er komin í ca. tuttugu, þrjátíu km. hraða, þá lokast dyrnar. Einmitt ábyggilega útaf þessu. Merkilegt nok.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Bordeaux á morgun, taka tvö

Á morgun fer ég til Bordeaux í annað sinnið í þessum mánuði. Næsta vika, sem og mestur partur vikunnar þar á eftir, fer undir vetrarfrí, og hvergi fríinu betur varið en í sveitasælu Bordeauxborgar.

Það verður þó með öðru sniði en fyrri ferðir þangað, því fjölskyldan verður í Berlín. Verð ég því einn í húsinu og skilja þau meira að segja bílinn eftir handa mér. Mér er þó um og ó yfir þessu fyrirkomulagi, enda er húsið stórt og drungalegt á næturnar. En þetta verður allt sveipað rómantískum blæ, enda þarf ég að styðjast við hita frá arninum, þar sem að kyndingin er slæm.

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Bordeaux á morgun

Ég vaknaði við það að sólin braust í gegnum gardínurnar snemma í morgun og ég spurði sjálfan mig hvort sumarið væri kannski að boða komu sína snemma í ár. Svo var þó aldeilis ekki þegar út var komið, ég alltof illa klæddur í hitastigi ábyggilega við frostmark. Ég var fórnarlamb hins gamalkunna gluggaveðurs! Ég lét það þó ekki á mig fá og hélt mína leið í skólann.

Hópurinn minn átti að halda kynningu í dag í sögu um bókmenntir á fyrri öldum Bandaríkjanna. Ég þurfti nánast að flytja minn part eftir minni, enda hafði mér ekki gefist tími þá um morguninn að prenta út textann minn. Ég hripaði nokkrum stikkorðum niður á blað og reyndi að læra þetta utanað. Sem það svo tókst þokkalega og fór ég með þetta nokkurn veginn áfallalaust. Sviðsskrekkurinn er þó hvergi farinn, því röddin mín titraði svo að það mætti segja að ég hafi jarmað þetta út úr mér.

Enn hafði ég ekki leyst úr flækjunni með miðann sem ég keypti til Bordeaux fyrir ranga viku. Úr varð að ég mun taka lestina til Bordeaux á morgun kl. 20:20, og verð ég því kominn á áfangastað kl. 00:03. Við komumst að þessu samkomulagi ég og Alfreda, en hún var ekki ánægð yfir þessum ruglingi með miðana.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Í engu bloggskapi

Síðastliðnir dagar hafa farið í það að framkvæma þá gríðarstóru ákvörðun sem ég tók nýlega, sem og að undirbúa öll þau frí sem ég sé fram á hér við skólann. Næsta frí hefst þann 20. næstkomandi og stendur yfir í um tíu daga. Ætla ég að taka lestina til Bordeaux og eyða fríinu þar. Mér varð þó á þau mistök að kaupa miða fyrir vikuna áður, en til happs er annar miðinn breytanlegur án kostnaðar, og því bara einn ónýtur.

Fjárhagslegt tjón: €25