miðvikudagur, 1. apríl 2009

Þriðjudagur í París

Varfærnislega held ég að ég megi kalla daginn í dag fullkominn. Þó það sé alls ekki af því hann var eitthvað merkilegur eða óvenju skemmtilegur. Veðrið var bara svo yndislegt og mér fannst allt ganga einsog í sögu. Ég vaknaði eldsnemma (uppúr kl. átta) við sólina og hóf morgunrútínuna áður en ég hélt í skólann í ræðumennskutíma kl. 10.

Útsýnið heima kl. 20:45. Ekkert voða merkilegt.

Það var skemmtilegur tími, einsog alltaf, og var okkur sagt að byrja að undirbúa ræðuna sem verður hið hálfgerða lokapróf. Hann tilkynnti svo að ég skyldi verða með þeim fyrstu til að flytja hana í næstu viku. Þetta verður aðeins erfiðara en fyrri skiptin þarsem að við eigum að semja ræðuna sjálf, en áður höfum við einungis þurft að finna einhverja góða ræðu til að flytja. Í síðustu viku ákvað ég að flytja ræðu Bills Clintons þar sem að hann biðst afsökunar á ruglinu í kringum Monicu Lewinsky. - Ég fékk ágætan hlátur fyrir það. - En í þessari ræðu eigum við að hrósa eða styðja einhvern eða eitthvað sem okkur er etv. hjartnæmt. Ekki hef ég hugmynd um hvað það gæti verið!

Eftir tímann fór ég ásamt Kristínu í Buttes-Chaumont garðinn, þar sem við átum hádegismat og lágum í leti í sólinni. Ég náði m.a. að lesa heilan fjórðung úr bókinni um manninn sem skein skærar en kóngurinn: „The Man Who Outshone the King“. Stórkostlega skemmtileg bók um Nicholas Foucquet, sem náði á ævi sinni að rísa til gríðarlega valda innan Frakklands, en varð síðan fangelsaður vegna afbrýðissemi konungsins og... ég er ekki kominn lengra. Mig grunar að hann verið tekinn af lífi. Eftir þessa frábæru nokkurra klukkustunda hvíld fór ég í hagfræði og hélt heim.

Ég var staðráðinn í því að ljúka öllum farmiðakaupum í dag. Ég hafði nokkrum sinnum farið í SNCF-búðirnar, sem eru hálfgerðar ferðaskrifstofur franska lestafélagsins... en alltaf rokið beinustu leið út aftur, því fjöldinn þar inni var óbærilegur.

Í dag skyldi ekkert heita óbærilegur fjöldi. Ég gekk inn og leit yfir mannfögnuðinn og sá þar innst inni tvær manneskjur, karlmann og konu, vinna hægt og rólega að því að sinna öllum skaranum. Ég tók númer og á stóð: 249. Ég þorði varla að lýta á tölvuskjáinn sem sýndi hvert þau voru komin. 202. 46 manns á undan! Sem betur fer tók ég Nicholas Foucquet með mér, svo að ég settist niður og fór að lesa. Allt gekk vel... ég þurfti að breyta einum miða og kaupa tvo í viðbót og ég þurfti lítið sem ekkert að borga í viðbót, ekki nema €26,90. Svo var biðin nú ekki alslæm. Bara 2 klst. og 20 mín!

Svona hljóðar ferðaplanið yfir páskana:

17. apríl, París - Angouleme (€43,50). Þar tekur Paul McQuillan á móti mér:

19. apríl, Angouleme - Bordeaux (€11,20). Í þetta sinnið mun ég gista heima hjá Catherine Köhler, sem verður mjög sérstakt reikna ég með. Ég hef alltaf gist hjá Alfredu, en hún er með gesti yfir páskana, svo að þetta varð úrlausnin.

24. apríl, Bordeaux - Bergerac (€7,30). Þar ætla ég að hitta Melanie frá Bretlandi. Við munum gista þar á einhverju hóteli í eina nótt, en leigja síðan bíl og keyra hingað og þangað.

26. apríl, Bergerac - Bordeaux - París (€66,40). Fimm tíma ferðalag, en sem betur fer á fyrsta farrými.

Engin ummæli: