fimmtudagur, 30. október 2008

Bordeaux

Eftir mikla baráttu við landssíma Frakklands (Orange), hef ég loksins fengið internet og síma! Símanúmerið er +33 155 287 346. Alveg skelfilegt númer, en hverjum er ekki sama. Á miðvikudaginn sl. háði ég mína lokabaráttu gagnvart þeim og fékk víst allt sent heim til mín á föstudag. Það skipti þó reyndar litlu, því þá um morguninn tók ég lest til Bordeaux til þess að hitta „fjölskyldu“ og vini.

Tvisvar á undanförnum tveimur mánuðum hef ég fengið símtal frá konunni sem ég hef búið hjá (Alfreda) þar sem hún segist hafa fundið ferðatösku fulla af ýmsum eigum mínum. Í fyrstu ferð mína til Bordeaux þetta skólaár fór ég einhvern tímann í september. Þá tók ég með mér til baka troðfulla, stóra ferðatösku af fötum. Nú í annað sinnið hafði ég fengið símtal frá henni, og vissulega hafði hún fundið aðra ferðatösku, og ekki bara eina heldur tvær!

Á föstudag var áætlaður komutími á lestarstöðina í Bordeaux um kl. þrjú, en okkur seinkaði vegna þess að við vorum stopp í ca. hálftíma einhvers staðar á miðri leið. Ekki veit ég af hverju. Kannski var verið að fleygja fólki út sem hafði ekki miða. Ég tók þá sporvagninn heim til vinkonu Alfredu, þar sem við höfðum mælt okkur mót. Hún býr í miðri borginni í 300 m2 íbúð. Þessi vinkona hennar heitir Catherine Köhler, vellauðug, en ekki hef ég komist af því af hverju. Ég hef oft spurt. Einu svörin eru að maðurinn hennar var jarðfræðingur, en ég veit ekki til þess að fólk geti efnast á því.

Um kvöldið á föstudag fórum við á opnun nýs veitingastaðar nálægt heimili Catherine við Chartrons. Ég borðaði „Steak Tar Tar“.

Laugardagur var viðburðalítill. Ég fór í bíó og sá myndina Vicky Christina Barcelona frá Woody Allen. Hún var bara ágæt, lítið meira en það. Eins og með síðustu myndina sem hann gerði, Match Point, þá var lítið að gerast alla myndina og hún endar svo með hvelli.

Á sunnudag fórum við, Alfreda og ég, til DAX sem er í um tveggja klukkutíma suður af Bordeaux. Þar er 15 ára sonur hennar í skóla. En þetta er enginn venjulegur skóli. Þarna koma saman feitir krakkar til þess að grennast. Það kostar € 2.000 á mánuði fyrir hvern einstakling að vera þarna. Ágætis kostnaður þar! Eftir að við sóttum soninn keyrðum við til Spánar og fórum við í gegnum Pýreneafjöllin, sem er eitthvert stórkostlegasta landslag sem ég hef séð.

---

Ég hef verið að velta miklu fyrir mér varðandi næsta skólaár. Möguleikarnir eru þessir: að halda áfram í PIBS, að skipta um í annan enskan skóla eða franskan skóla, fara í HÍ eða til Norðurlandanna. Ég hallast mest að því að fara í franskan skóla næsta skólaár. Ég þarf að pæla betur í þessu.

sunnudagur, 19. október 2008

Ísland / Færeyjar ?



Undanfarin ár hefur það verið heldur skemmtilegt að ferðast og hitta útlendinga, og fá síðan borna upp þá spurningu: „Hvaðan ertu?“ Því Ísland hefur verið, svo lengi sem maður man eftir, spennandi og svo ógurlega fjarlægt fyrir útlendinga. Nú held ég að allt annað sé uppi á teninginum. Íslendingar eru orðnir að athlægi í útlöndum. Fólk hefur meira að segja verið rekið úr verslunum, fyrir það eitt að vera Íslenskt. Maður er orðinn svo vanur því að vera elskaður og dáður, þó það sé ekki fyrir neitt nema þjóðernið! Því hef ég velt því fyrir mér hvort ég, og við Íslendingar allir í útlöndum, ættum ekki bara að segjast vera frá Noregi, Danmörku, eða jafnvel Færeyjum. Færeyjar væru kannski það allra besta! Þar fengi maður flest þau viðbrögð sem maður hefði fengið undir venjulegum kringumstæðum. Það þyrfti reyndar ábyggilega í hvert skipti að leggjast út í þvílíkar útskýringar á hvað og hvar Færeyjar eru, en það enginn svakalegur fórnarkostnaður. Við þyrftum bara að segja að Björk og Sigur Rós séu af Færeysku bergi brotin.

Að öllu gamni slepptu þá er ég hjartanlega sammála Almannatengslafélagi Íslands um að landið ætti að ráða stóra erlenda almannatengslaskrifstofu til að reyna að reyna afstýra því að mannorð okkar hljóti varanlegan skaða. Þegar þar að kemur, þá ættum við að verja öllu söluandvirði bankanna þriggja í herferðir erlendis til að gera Ísland svalt á ný!

---

Á mánudaginn verður fyrsta prófið mitt. Það verður í frönsku. Á föstudag verð ég kominn í vikufrí, svo að ef einhver vill senda mér flugmiða til Íslands, þá er það velkomið. Annars mun ég leita suður á bóginn á föstudag, til Bordeaux. Kem heim viku síðar.

laugardagur, 11. október 2008

Þjóðarstolt, Icelandair.

Þetta má sjá alls staðar um neðanjarðarlestarkerfi Parísar. Icelandair er ábyggilega eina íslenska fyrirtækið í einhvers lags sókn erlendis.

Bílasýningin í París















Núna rétt í þessu var ég að koma heim af Heimsbílasýningunni sem er haldin hérna ár hvert og þegar ég var í lestinni á leiðinni heim heyrði ég íslensku í fyrsta sinn hérna úti. Þetta voru ábyggilega þrjár, fjórar manneskjur. Ég gat því miður ekki heilsað þeim.

Eftir að ég hafði tekið fyrstu myndina af einhverjum bíl sem hékk á vegg, dóu batterýin í myndavélinni. Ég þurfti því að kaupa pakka af batterýum á okurkjörum í einhverjum sölubási! Sýningin sjálf var ágæt, en mér leið einsog allri Menningarnótt hefði verið troðið inn í Egilshöll. Mannfjöldinn var þvílíkur. Ég taldi hátt í hálfa milljón manns.





























Það var kannski ekkert afskaplega mikið að sjá þarna. Mér sýnist BMW vera að stíga skref í rétta átt. Hugmyndin að næsta 7-línu BMW er fín, samt soldið líkur Lexus. Þarna sá ég samt á einum stað hversu ljóta bíla Mercedes-Benz framleiðir. Það er af sem áður var. Næstum því allir bílarnir eru forljótir. Sem betur fer eru einhverjar undantekningar, en þær eru tiltölulega fáar.

Ég held ég hefði skemmt mér betur með því að fara á rúnt um nokkrar bílasölur.

þriðjudagur, 7. október 2008

Göngutúr í lengra laginu ofl.












Þar sem lítið var að gera síðasta laugardag, þá ákvað ég að fara í göngutúr. Stuttan hálftímagöngutúr um miðbæinn. Klukkan sjö þá lagði ég af stað, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum missti ég allar mínar áttir. Ég ákvað að halda heim á leið og ganga í austurátt, en í raun gekk ég beina leið norður. Ég gekk svo lengi norður, án þess að sjá neinar vísbendingar um það, að það var ekki fyrr en ég var kominn að Sacré Ceur, einum nyrsta punkti Parísar, að ég áttaði mig á mínum hrakförum. Tók þá við um eins og hálftíma gangur heim.

Hér uppi er kort sem sýnir, cirka, þá leið sem ég gekk.


Einn kennarinn sem við erum með er engan veginn starfi sínu vaxinn. Hún kennir „Management Science“, sem útleggst einhvern veginn á íslensku sem stjórnunarfræði og hún hefur, kaldhæðnislega, enga stjórn á nemendunum.

Helmingurinn af nemendunum í hverjum tíma er uppbyggður af Frökkum. Þeir eru flestir óþroskaðari en við erlendu nemendurnir og eru talandi allan tímann upp í opið geðið á kennaranum. Það má vera vegna þess að flestir þeir frönsku koma úr frekar efnuðum fjölskyldum, hafa kannski fengið margt upp í hendurnar og hafa því etv. ekki þurft að þroskast jafn hratt og hinir. Ég veit það ekki.

En alla vega… Við erum fjögur saman sem höfðum setist í öftustu röðina og við erum einsog við erum vön, heldur fagmannleg og vinnum samviskusamlega, fylgjumst með og skiptumst kannski á einu og einu orði. En allan tímann, á meðan frönsku nemendurnir blöðruðu sín á milli einsog þeir ættu líf sitt að leysa, ef eitt orð fór frá okkur þá var tíminn stöðvaður og haldinn fyrirlestur um hvað við fjögur í öftustu röðinni værum sí og æ að niðurbrjóta allan vinnufrið! Svo þegar kom að því að svara einhverjum dæmum, þá að sjálfsögðu var því beint að okkur. Allan tímann var ég lagður í einelti af kennara mínum, ég sem er þægari og kurteisari en hver annar!

fimmtudagur, 2. október 2008

Skólinn


Stóri munurinn frá menntaskóla til háskóla er sá að þú stendur frekar á eigin fótum. Þetta er að sjálfsögðu. Þetta var manni sagt við umskiptin úr grunnskóla og þetta var svo aftur sagt við útskrift úr menntaskóla. En það sem mér finnst vera umsvifameira er að í háskóla þarftu alltaf að vera á nálunum. Þú þarft að taka þátt í hverjum tíma og það er oft stór partur af lokaeinkunn. Því er engin örugg 10 þegar þú lærir bara fyrir lokapróf. Og fyrir seinhugsandi fólk einsog mig er þetta enn verra. Þú þarft stöðugt að búa þig undir og spyrja sjálfan þig: Hver væri dæmigerð spurning um þetta viðfangsefni og undirbúa svo svar við henni.

Uppsetningin á skólanum sjálfum er gríðarlega flókin. Þetta er ekki bara einsog HÍ eða HR; sjálfseignarstofnun, með sín markmið og framtíðarplön. Þetta er einkaskóli sem er eign annars skóla. Ég er í Paris International Business School (PIBS) sem er eign Groupe INSEEC, sem á síðan einhverja fleiri. Svo er skólinn minn með virkt samstarf við MBA Institute og INSEEC Business School. Það er ég reyndar ekki ánægður með. Mér finnst það ekki vera samstarf sem byggir upp PIBS, heldur þvert á móti. Þá er skólahúsnæðið er ekki gott. Það er dreift um mismunandi byggingar og því er ekki hægt að horfa á neinn einn punkt og segja „þetta er skólinn minn“. Það eru reyndar áætlanir um að flytja um mitt næsta ár.

Ég er hins vegar mjög ánægður með kennsluna á heildina litið. En það er eitt sem ég tek mjög greinilega eftir, ég nýt þess að vera í tímum með þeim kennurum sem eru bandarískir, en ekki hinum. Það er eitthvað ákveðið, ég veit ekki hvort að það sé almennt hjá Bandaríkjamönnum, en eitthvað ákveðið er það sem gerir þá að betri kennurum. Þeir eru áberandi vel undirbúnir fyrir hvern tíma og þeir nota frekar „leikræna“ tilburði. Og þá er ég reyndar að teygja orðið leikrænt, en þeir kunna að vekja áhuga á einhverju sem þyrfti ekkert endilega að vera það. En, hvað er ég þá að gera í Frakklandi?

Herbergi mitt, nýja óperuhúsið í hverfinu og minnismerkið um Bastilluna




Skjótt skipast veðrið í krónum

Á meðan himnarnir hrundu heima á Íslandi hefur lífið verið tiltölulega fábreytt í Frakklandi. Það er amk. hjá mér, sem hef hvorki internet né síma, svo að fréttir af fjármálasviptingum vestanhafs, heima og í Bandaríkjunum, koma ekki í flóðgáttum. Svo að ég áttaði mig á hruni krónunnar ekki fyrr en að kortinu mínu var synjað úti í búð. Þegar ég kom hingað, í byrjun september, þá var Evran „ekki nema“ í 120 krónum. Frá því að ég kom fyrst til Frakklands hefur krónan fallið um 78% gagnvart Evru.

Þar sem að ég er enn ekki kominn með heimilissíma hef ég verið að spara öll símtöl heim.
Ég vona að mér verði fyrirgefið það. Ég mun reyna að bæta það upp þegar þar að kemur. Ég hef beðið í tvær vikur núna eftir tengingu við umheiminn, og sýnist mér ég þurfa að bíða á þriðju viku. Allt tekur þvílíkan ótrúlegan tíma, sama hvað það er, og á það bætandi er ekki viðhöfð sú víðtekna venja um að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Maður lærir á margan hátt að meta það sem við höfum heima á Íslandi, en það er ekki það að mér þyki þetta umhverfi óbærilegt. Það þarf bara að hægja á sér, slaka á og gera sér grein fyrir því að það tekur klukkutíma að fara í bankann, kaupa í matinn, og í raun hvað sem er. Þá fyrst er hægt að njóta þessa.