þriðjudagur, 14. apríl 2009

Sacré-Coeur og páskafrí

Eftir nokkuð leiðinlegan dag (mánudag sl.) með norska fólkinu í Cité-garðinum við háskólasetrin, hugsaði ég með miklum vonbrigðum til fyrsta dags páskafrísins. Við sátum þar og spjölluðum í sólinni eða lásum, en einhvern veginn var ég í engu skapi fyrir það. Ég vildi gera eitthvað skemmtilegt!

Úr hópnum slitnaði um fjögurleytið, eða kannski var klukkan orðin fimm. Ég fór því einn að Les Halles og ákvað að fara á bíó. Horfði á einhverja hundleiðinlega mynd, en mér var fljótt bjargað frá henni. Kristína, sem hafði hjálpað mér með símtöl mín til Noregs í síðustu viku, hringdi og vildi gera eitthvað. Ég beit fljótur á agnið og hún ætlaði að koma niður í bæ. Natalka hafði þá bæst í hópinn og við héldum eftir langa göngu að Montmartre hverfinu, sem er í norður París.

Þar borðuðum við kvöldmat á stórkostlegum veitingastað (Le Relais Gascon) sem við höfðum fundið nokkru áður. Ég fékk mér lauksúpu. Eftir þennan frábæra kvöldmat, og gott vín, tókum við stefnuna á Sacré-Coeur.

Þar tylltum við okkur í tröppunum og hlustuðum á götulistamenn syngja, drukkum bjór sem var seldur þarna og horfðum á fjöllistaatriði.

Þessi ljósmynd nær á engan hátt að sýna stemninguna sem ríkti

Í dag var minna um að vera, en við gengum mikið, ég ásamt norska fólkinu og við enduðum kvöldið í eldhúsi norska hússins í háskóla- görðunum. Á meðan ég skrifa þennan pistil, ligg ég uppi í rúmi og neyðist til að hlusta á hroturnar úr Josiane sem koma frá stofunni, sem minnir öllu heldur á ljónsöskur alla leið neðan frá Afríku. Þrír dagar þangað til hún fer.

Engin ummæli: