fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Ófáanlegar nauðþurftir

Ef einhver sæi sér fært að senda mér einn pakka af raspi, þá væri það vel þegið.

33, rue de la Roquette
Chez Mme. Puig
75011 Paris
France.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Dagskrá helgarinnar

Það verður óvenju mikið um að vera næstu daga:

Annað kvöld verður haldin þakkargjörðarhátíð að amerískum sið. Það þykir víst á allan hátt fínt að tengja sig við Bandaríkin eins mikið og hægt er. Allavega í þessum skóla. Veit ekki hvort það sama gildir um Frakka almennt.

Á föstudaginn verður svo minn vikulegi píanótími kl. 14 og á laugardagskvöld var mér boðið í sendiráðið til að fagna 90 ára fullveldisafmælis Íslands. Sem er reyndar mjög viðeigandi á meðan pöpullinn á Íslandi ræðir um að pakka saman, gefast upp og flýja til ESB.

Á sunnudag fer ég í reiðtúr með „skólafélaginu,“ ef það skyldi kalla. Það verður ábyggilega mjög gaman þar. Þetta er dagsferð og verður kennsla í boði. Ég er að gera margt hérna sem mér hefði ekki dottið í hug að mér stæði til boða, og hefði ábyggilega ekki gert heima á Íslandi. Ég veiti mér klapp á bakið fyrir það. Þá er bara tvennt eftir að gera áður en ég dey: fara í lax og skotveiði.

Kvíði

Það er einkennilegur kvíði sem kemur stundum yfir mann þegar maður ferðast eitthvert með metróinu hér í borg. Oftar en ekki vill svo til að einhver heimilislaus, sem þreyjar þorrann með betli, eyðir öllum deginum í það að svissa á milli lestarvagnanna, syngjandi, spilandi eða jafnvel bara gólandi - og eftir þá sýningu gengur um og krefst einhverrar þóknunar.

Flestir fyllast etv. ekki kvíða við að þurfa að neita þessu fólki lifibrauðs, enda ábyggilega orðnir vanir, en það er ég ekki. Ég reyni hvað ég get til þess að forða augnsambandi, set iPod-inn minn í gang og læt sem ég hafi aldrei tekið eftir þeim. Jafnvel er maður svo heppinn að lestin komi að endastöð manns áður en garginu er lokið!

mánudagur, 24. nóvember 2008

Hálfmaraþon

Ég fór hálft maraþon í kvöld rúman 21 km. Ég sprengdi mig á svipuðum stað og síðast.

Tíminn var 2 klst. og 29 mín.

Jólamarkaðurinn sem var ekki

Ég klæddi mig upp og hélt út í dembuna sem hafði hrjáð suðurhluta Parísar í allan dag. Dæmigerður sunnudagur, verður að segjast. Stefnuna tók ég á stærsta jólamarkaðinn í Frakklandi, sem átti að vera við Arc de la Défense. Ég hlakkaði reyndar ekkert til, enda flestir þessir jólamarkaðir eins, og mér finnst þeir ekkert skemmtilegir. Þetta var bara það eina sem mér datt í hug að gera.

Þegar á leiðarendann var hins vegar komið mætti ég einungis afgirtu jólaþorpinu, öll ljós slökkt og tilkynningaskilti þar sem á stóð: Jólamarkaðurinn 28. nóvember. Mér var samt eiginlega alveg sama.

Nóvember-rigning

Nú þegar líður á nóvembermánuð er heldur betur orðið kuldalegt. Ég fékk fregnir af því að snjóað hefði víðsvegar um borgina, þó reyndar ekki hjá mér. Ég hefði þó fagnað því í staðin fyrir þá rigningu sem hefur dunað á mínum bæjarhluta í allan dag.

Allur þessi kuldi fær mig til að hugsa um hvað ég skuli gera þann 1. febrúar þegar ég verð sendur út á gaddinn. Ég hef hingað til minnst viljað hugsa út í það. Verður það verkefni vikunnar að reyna að finna mér húsnæði fyrir þann tíma, þó ég muni ábyggilega ekki eiga erfitt með að trassa það einsog margt annað sem ég hef á minni könnu.

Ég get státað mig af því að á föstudag sl. skokkaði ég hálft maraþon. Það er nú reyndar hálf lygi, því ég sprengdi mig eftir um 17 km. og gekk restina af leiðinni. En ég fór 21,3 km og var leiðin um miðbæ Parísar að sigurboganum, niður að Eiffel-turni, framhjá Notre Dame og heim. Ég vil samt leggja áherslu á að ég skokkaði þetta, það var lítið af þessu sem mátti kalla hlaup.

Næsta umferð, sem verður að öllum líkindum á morgun, verður undir tímatöku. Ég reikna með að um þrír klukkutímar fari í þetta. Sem verður að kallast hrikalega slappt, þegar menn eru að fara heilt maraþon á tveimur og hálfri klst.

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Einkunnir, framhald

Nú í dag var sjöunda einkunnin að koma í hús. Hún var í bandarískri sögu fyrir 1850, og var það hvorki meira né minna en 20/20, 100%. Ég vona að þetta sé það sem koma skal! Meðaleinkunn er núna 8,5 af 10.

Ég fékk þá að endurtaka prófið þar sem ég sló öll met í slæmum árangri. Ég held mér hafi gengið bara þokkalega í þetta sinn. Úr þessu prófi fæ ég þó vafalaust mína næstlélegustu einkunn.

Að hoppa fyrir lest

Það líður varla sá dagur að ég sjái á upplýsingaskjá neðanjarðarlestarkerfisins að á einhverri leið sé eins eða tveggja tíma seinkun vegna „slyss á farþega,“ sem mér er sagt að þýði hreint og beint að einhver hafi hoppað fyrir lestina. Og enginn virðist kippa sér upp við það. Þetta er náttúrulega daglegt brauð hérna, en mér sýnist sem kerfið hafi staðið nákvæmlega eins í heila öld. Á þetta hefur greinilega ekki verið litið alvarlega.

Á línu 14, sem er nýjasta metró-leiðin hér í bæ, voru settir upp glerveggir og -hurðir meðfram hverjum inngangi, einsog maður sér alls staðar í Kaupmannahöfn.

Það er er ábyggilega feiknarlegur langtímasparnaður sem fylgir þessarri nýju útfærslu. Með henni er í fyrsta lagi hægt að sleppa lestarstjóra, í öðru lagi getur lestin verið miklu mun hraðskreiðari og í þriðja lagi þá eru engar tafir vegna sjálfsmorða - sem í sjálfu sér felst mikill sparnaður.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Einkunnir

Nú í dag fékk ég mína sjöttu einkunn af átta, og hafa þær flestar legið í hærri helminginum. Hérna er listinn:

Fjármál fyrirtækja: 16,5/20 - Ég er gríðarlega vonsvikinn yfir þessarri einkunn. Ég átti að geta miklu meira á þessu prófi, og ég vona að það verði bara til þess að þetta endurtaki sig ekki í lokaprófinu.
Inngangur að fjármálum: 17,5/20
Inngangur að bankakerfinu: 9/15
- Veit ekki hvað ég get sagt við þessu. Slæm einkunn, en einsog er í tísku að segja í dag, þá var þetta bara alls ekki mín sök! Ég varpa allri ábyrgð á kennarann.
Stjórnun: A-
Rekstrarhagfræði: 18,75/20
Fjármálamarkaðir: 17,5/20

Meðaleinkunn fyrri hluta annarinnar er því 8,225 af 10, sem ég vil helst reyna að hífa upp yfir níu. Ég veit samt ekki hvernig ég á að fara að því með þennan kennara í bankatímanum, og svo fór ég í próf í dag sem mér gekk alveg skelfilega í. Það er ekki síðan að ég fór í skyndipróf í Stærðfræði 103 í Árbæjarskóla sem að mér hefur gengið álíka illa. Ég talaði þó við kennarann um að fá að taka nýtt próf. Ég reikna með því að ég fái það. Lykillinn að velgengni í skóla er að eiga í góðu sambandi við kennara sína. Það opnar margar dyr.

mánudagur, 17. nóvember 2008

Það er greinilega allt hægt

Ekki þótti mér nóg að skokka mína 8 km. um daginn, því nú í kvöld bætti ég um betur og fór heila 18 km! Titillinn segir allt sem segja þarf. Það er greinilega allt hægt, enda telst ég seint til íþróttasinnaðra einstaklinga. Hér er leiðin sem ég fór:

Það var reyndar gríðarlega erfitt að skokka seinustu sjö eða átta hundruð metrana og leyfði ég mér að hvíla mig nokkuð á þeim spotta. Með þessu áframhaldi verð ég farinn að hlaupa hundruði kílómetra þegar ég kem heim!

Hins vegar sá ég hina mögnuðustu sjón á þessu skokki mínu. Það var Eiffel turninn lýstur upp blár, og á þeirri stundu sem ég var að skokka framhjá honum byrjaði hann allur að blikka, einsog með þúsundum stjarna sem lýstust til skiptis. Það er gríðarlega erfitt að lýsa svona, en þetta var alveg magnað. Hérna fann ég eitthvað svipað á YouTube:

http://www.youtube.com/watch?v=f6_ZDbiqecg

En að sjá þetta með berum augunum er allt önnur upplifun!

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Svona er París í dag

Í gær hafði ég tekið frá hálfan daginn til þess að mæta á „Salon des Écoles de Commerce,“ sem er sýning sem haldin er hvert misseri til að kynna rjómann af viðskiptaháskólum Frakklands. Ég hélt mína leið þangað, brösulega þó, því fjöldinn allur af metró-stöðvum var lokaður vegna framkvæmda. Framkvæmda sem ég reyndar skil ekki. Því af þeim framkvæmdum sem þegar er búið að leggja út í þá hef ég séð að þó það sé búið að endurnýja allt og leggja nýjar flísar að verki loknu, þá lýtur þetta nánast eins út. - Og það er ekki einsog stöðvarnar höfðu verið glæsilegar fyrir!

Að lokum komst ég þó á áfangastað og við mér tók tvö til þrjú hundruð metra röð til að komast inn á sýninguna. Þetta var vegna þess að sýningahöllin réði ekki við þennan skara fólks. Ég var reyndar ánægður með að heyra það eftir upplifun mína á bílasýningunni í október. En við biðum og biðum og eftir um hálftíma skeði eitthvað sem olli því að nokkurs konar áhlaup var gert að hliðinu, með litlum árangri. Við þetta hvarf þetta litla skipulag sem var fyrir og allir stóðu í þvögu. Eftir um klukkutíma bið ákvað ég að fara og reyna aftur daginn eftir. En það var sárt að hverfa frá eftir þennan tíma sem ég var búinn að fjárfesta í þessu, enda verður maður alltaf tregari til eftir því sem maður bíður lengur.

Í dag var engin röð og því bar ákvörðun gærdagsins góðan arð. Ég sá þó fljótt að þetta myndi ekki beint gagnast mér. Ég vissi mest allt sem var verið að kynna og ég þekkti alla skólana. Ég veit reyndar ekki við hverju ég var að búast; kannski bara einhverri góðlátri konu sem tæki á móti mér og biðist til að sjá um öll mín vandræði. Það var alla vega ekki þannig!

Ég fór því bara heim eftir stutt stopp og ákvað að verja því sem eftir væri af sunnudeginum í afslöppun. Afslöppun þurfti ég svo sannarlega á að halda eftir þann viðbjóð sem ég átti eftir að sjá í neðanjarðarlestinni. Ég settist innst í lestarvagninn beint á móti tveimur konum, sem voru sjálfar heldur betur afslappaðar. Önnur konan þótti mér reyndar nokkuð hreinleg miðað við aðra heimilislausa hér í borg, en þá varð mér litið í klofið á henni og ég var næstum því farinn að æla. Ég kúgast núna við það að rifja þetta upp. Hún var klædd í hvítar buxur og því var þetta vandamál enn augljósara; dökkgulir og brúnir blettir lágu frá klofinu niður á læri! Ég var næstum því staðinn upp til að skipta um sæti, en ekki vildi ég nú vera dónalegur.

Þetta þætti mér undir eðlilegum kringumstæðum vera alveg nægur skammtur af stórborgarlífinu, en maður stjórnar víst ekki öllum aðstæðum. Ég gapti því bara þegar ég sá það sem tók við. Hin konan sem var nú öllu ósmekklegri í klæðnaði (þá fyrir utan fyrrnefndu bletti), stóð upp og við blasti (og hvernig get ég hugsanlega sagt þetta smekklega), við blasti inngangurinn að henni. Er ekki auðskiljanlegt hvert ég er að fara? Mætti draga þá ályktun að hún sé komin einu skrefi lengra en hin konan, því ég reikna með því að hún sé búin að eyða burt þessu svæði buxnanna með þvagi sínu.

En það var ástæða fyrir því að hún stóð upp. Hún tók upp tissjú og fór að þrífa sig. Ekki þótti mér þetta þó næg ástæða til að skipta um sæti, enda var stöðin mín að nálgast.

laugardagur, 15. nóvember 2008

Hamrahlíðakórinn

Hverjum hefði grunað að jafn ómerkileg stofnun og einhver kór frá Íslandi skyldi hlotnast sá heiður að fá að syngja í einu af höfuðvígum kaþólsku kirkjunnar og einu frægasta kennileiti Frakklands; Notre Dame. En heimurinn er svo sannarlega skrítinn í dag, og ber þetta kannski merki þess. Mér fannst það vera skylda mín, sem þjóðræknum Íslendingi, að vera viðstaddur þessa merku stund.

Ég bjóst ekki við margmenni, en hægt og bítandi fjölgaði í hópnum, svo að nær helmingur sætanna var í notkun. Það voru ábyggilega um þrjátíu, fjörutíu Íslendingar í áhorfendaskaranum, og þekkti ég engan, nema að sjálfsögðu sendiherra Tómas Olrich.

Eftir allt þetta stangl við að koma þessum íslenska kór alla leiðina til Frakklands, fá að syngja í þessarri stórmerkilegu kirkju og hafa æft ábyggilega í marga mánuði, þá var sjóvið drepleiðinlegt. Það fékk mig til að hugsa um allt það feiknarmikla magn af lögum sem betur hefði mátt sleppa að semja. Með því var þó ekki hámarkinu náð! Það var um miðbik söngleikanna (var ég að semja nýtt orð?) þegar þau syngdu einhver ósköp þar sem þau stöppuðu saman, smelltu á kinnar og blésu inn og út. Þá langaði mig að hverfa ofan í skóna af skömm.

Eftir þessa tilraun hjá þeim stóðu allir upp sem einn og klöppuðu. Fyrir mitt leyti þá finnst mér að ef eitthvað atriði eða einhver sýning er ekki sem skyldi, þá eigi ekki að hrópa húrra og berja höndum saman þangað til manni blæðir, einsog er svo innbyggt í Íslendinga. Pent, kurteisislegt klapp ætti að nægja.

Á heimleiðinni sá ég meitlað í gangstéttina „La Couronne“, sem er heiti krónunnar á frönsku:

Ef til vill viðeigandi í dag, veðruð, ljót, og allir traðka á henni.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Örblogg

Þessi undanfarna þemavika breytinga stendur enn undir nafni. Um ellefuleytið fór ég út og ætlaði að skokka minn reglulega hring, en eitthvað var það sem knúði mig lengra. Ég fór ekki um tvo og hálfan km., einsog ég geri venjulega, heldur yfir 8 kílómetra!

Sjaldan hef ég farið í jafn þægilega sturtu og eftir að ég kom heim. Það eina sem var eitthvað vandamál voru geirvörturnar mínar, sem höfðu greinilega nuddast vel í bolinn, enda voru þær orðnar þrútnar og viðkvæmar þegar leið á seinni hlutann.

Það er aldrei að vita nema ég fari í Glitnismaraþonið næsta sumar. Ef það þá verður? Eitthvert ríkisbanka-maraþon kannski.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Golfklúbbur Reykjavíkur

Þetta eru svo sannarlega tímar mikilla breytinga! Nú fyrir stuttu var ég að fá boð um það að ég hefði fengið inngöngu í GR, einungis þremur mánuðum eftir að ég skilaði inn umsókn. Kemur það mér skemmtilega á óvart þar sem að ég var látinn vita af því að ég þyrfti að öllum líkindum að bíða hátt í þrjú ár!

Það eru greinilega margir sem hafa þurft að leggja kylfurnar á hilluna að undanförnu. Ekki get ég ímyndað mér af hverju.

Í öðru samhengi

Mér varð hugsað til þessa húss sem ég gekk framhjá á leið minni til Versala. Ég efast ekki um að þetta væri fallegasta húsið á Íslandi. Ætli margir taki eftir því hérna í Frakklandi? Ég býst ekki við því að það sé hátt skrifað á mörgum listum.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Píanó

Á mínu daglega flakki um netheima datt ég inn á smáauglýsingu frá íslenskri konu hér í París, þar sem hún býðst til að kenna fólki á píanó. Ég ákvað að hringja í hana og spyrja hana nánar út í þetta. Það varð svo að ég mun hitta hana á föstudaginn kl. 14.

Hún heitir Guðrún Dalía Salómonsdóttir, og mér skilst að hún sé búin að vera áberandi innan píanóheimsins á Íslandi undanfarið.


Í kvöld skokkaði ég svo 2,74 km.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

WorldClass - Íslenskt?

Það kom mér einstaklega á óvart að sjá þetta út úr lestinni á leið minni heim í gærkvöld. Þetta kom mér svo á óvart að ég ákvað að stökkva út í dembandi rigninguna og taka mynd. Það er tvennt sem ég hef alltaf haldið: Ég hélt að WorldClass væri íslenskt vörumerki og hefði ekki tekið þátt í neinni útrás. Því ákvað ég að rannsaka þetta örlítið.

World Class Fitness Center í Marriot hótelinu hérna í París er hluti af World Class Fitness Center sem er stofnað í Svíþjóð árið 1983 af Ulf Bengtsson. WorldClass Iceland er stofnað árið 1985, því er rökrétt að halda að Björn Leifsson hafi leigt vörumerkið af WorldClass í Svíþjóð. En þegar ég skoða heimasíðu sænska fyrirtækisins, þá finn ég ekki Ísland:

http://www.worldclassfitness.net/Club-Locator/

Er þetta mál hið furðulegasta!

Versalir

Af ýmsum ástæðum hefur þessi ferð mín frestast mörgum sinnum, en loksins tókst mér þó að hunskast til og drífa mig úr bænum til að skoða þessa þarfasjón (must see). Ég byrjaði á því að taka línu fimm í neðanjarðalestarkerfinu niður á Place d'Italie, skipta þar í línu sex og halda mína leið á Montparnasse lestarstöðina. Þar keypti ég mér lestarmiða til Versali. Lestin sem ég þurfti að taka var skemmtilega uppbyggð á tveimur hæðum, og mjög rúmgóð.

Aðkoman að höllinni þótti mér vera óvenju tilkomulítil, miðað við það að vera ein þekktasta listasmíð síðustu alda. Ég leit þó björtum augum á það og taldi það etv. vera leið til þess að auka áhrifin sem skella á fólki þegar inn er komið. Þó er ég viss um að hápunktur ferðarinnar hafi verið þegar ég komst að því að aðgöngumiðinn kostaði ekki nema €10 þegar ég var búinn að reikna með að borga €25. Ótrúleg gleði skein því innan í mér þegar ég gekk um ganga hallarinnar.

Það var nokkuð erfitt að átta sig á mikilfengleika herbergjanna þar sem að hvert þeirra átti að standa fram úr því fyrra og þegar maður En þó tel ég að stjórnendur hallarinnar hafi fundið ákveðna leit til þess að setja fólk í samhengi, og sjá hversu stórkostlegur hver og einn salur væri. Á víð og dreif var nefnilega tímabundin sýning á hinum hörmulegu verkum nútímalistamannsins Jeff Koons, sem meðal annars hefur komið til Íslands í tengslum við Listahátíð. Hér er dæmi um list Koons:

Einni skemmtilegri staðreynd var skotið að mér um byggingu Versala. Framreiknaður kostnaður á byggingu hallarinnar var um $2 milljarðar. Ekki nema.

Það fær mann til að hugsa um hvað við ætlum að gera við Alþjóða gjaldeyrissjóðslánið!

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Lítilfjörlegir dagar.

Nú í vikunni ákvað ég að læra á Georges Pompidou bókasafninu, sem er eflaust hið stærsta í borginni. Aldrei fyrr hafði ég séð biðröð til að komast inn á bókasafn, en augljóslega er einhvern tímann allt fyrst. Þetta var heldur engin smávægileg röð. Það hefði verið hægt að skipta út takmarkinu fyrir eitthvert af vinsælustu tækjunum í Disneylandi. Í staðinn fór ég á kaffihús.

Í gær fann ég það að ég var að veikjast, og hef ég komist að þeirri niðurstöðu að um smávægilega matareitrun hafi verið að ræða. Ég reikna með því að það hafi verið Subway samlokan sem ég fékk mér daginn áður, því daginn eftir fann ég enn bragðið af henni úr maganum.

Í gærkvöld var ég síðan orðinn slæmur. Ég lærði ekkert fyrir tvö próf sem ég voru á dagskrá daginn eftir og um nóttina sá ég ekki fram á að geta mætt í skólann. Um klukkan 6:30 fór ég inn í eldhús, setti á mig latex hanska, fór inn á klósett, stakk puttanum upp í mig og kastaði upp. Þvílík og önnur eins uppköst man ég ekki eftir að hafa framkallað áður.

Eftir þetta var ég nánast orðinn heilbrigður, mætti í skólann og stóð mig, að ég held, ágætlega í prófunum tveimur.