mánudagur, 27. apríl 2009

Ferðalög - Riberac, Bordeaux (fyrri hluti)

Páskafríið á Svæði C í Frakklandi (París, Bordeaux ofl.) hófst þann 10. apríl sl. Landinu er nefnilega skipt niður í þrjú svæði þar sem mismunandi dagar skiptast niður í jafnmarga frídaga. Þannig er allt landið ekki í fríi á sama tíma og þar með stíflast ekki allir þjóðvegir, lestarstöðvar, flugvellir osfrv. Ég átti nokkra daga til að liggja í leti í París áður en hið „mikla“ ferðalag mitt um suðvestrið hófst.

Paul tók á móti mér í Angoulême upp úr kl. hálfþrjú, en þó reyndar af algerri tilviljun. Hann hafði sagt mér að hann yrði eitthvað seinn og það gæti jafnvel farið svo að ég þyrfti að bíða í einhvern klukkutíma. Vitandi það að Paul myndi hringja í mig þegar hann kæmi, ákvað ég að gera stuttan túr um bæinn, en svo ljótur var hann að ég sneri við stuttu síðar. Á nákvæmlega sömu stundu og ég kem tilbaka á lestarstöðina kemur Paul. Síminn hans var þá týndur og hefði ég því að öllum líkindum þurft að bíða alllengi eftir símtali, röltandi um bæinn.

Það var lítið gert heima hjá Paul sem væri frásögu færandi. Það væri helst hægt að flokka helgina sem hreina og beina afslöppun. Við borðuðum góðan mat og fórum lítið langt frá bænum. Þó fórum við stutta ferð um Cognac-héraðið og ætluðum að skoða Hennessy koníakframleiðandann, en þar var lokað um helgar. Við fórum þá í skoðunarferð um vínekrur og framleiðslusali Remy Martin. Sem að mínu mati var hálfgert frat. Hálfur túrinn fór í að horfa á eitthvað myndband um framleiðslu koníaks og ræður um að Remy Martin væri stærst og best að öllu leyti.

Heimilið þeirra var, einsog í fyrra, himnaríki líkast. Húsið sjálft er staðsett við miðbæjartorg Riberac. Það skiptist í þrjár hæðir sem gera samtals ábyggilega 500 - 700 fermetra. Herbergið sem ég svaf í var stærra en öll stúdíóíbúðin mín í París.

Sveitin fyrir utan Riberac.

Á sunnudagskvöld kom ég til Bordeaux og sótti Alfreda mig á St. Jean lestarstöðina. Það var svo mikið af fólki heima hjá henni að ég neyddist til að sofa í sófanum í stofunni. Næsta dag fékk ég að flytja heim til Katherine Köhler, vinkonu Alfredu. Það var í fyrsta skiptið sem ég gisti heima hjá henni og var hún enginn eftirbáti Pauls í Riberac. Hún bjó um mig í góðu herbergi með rafstýrðu rúmi og sér baðherbergi. Þar að auki býr hún ekki á allslæmum stað, við Garonne-ánna, steinsnar frá gamla bænum.

Heima hjá K. Köhler.

Ég hafði ekki ætlað mér nein stórræði í þessari ferð. Hún snerist fyrst og fremst um að hitta fólkið aftur. Ég tók þó að mér að vinna svolítið í garðinum hjá Alfredu. Ég reytti ekki bara arfa, heldur gróðursetti ég tvo rifsberjarunna og rabbabara.

Ég, við störf.

Engin ummæli: