miðvikudagur, 28. janúar 2009

Nýjustu tölur

Frekari prófaútkomur eru eftirfarandi:

Corporate Finance (rekstrarhagfræði?) - 17,3 / 20
Financial Markets (fjármálamarkaðir) - 16 / 20
Introduction to Finance (inngangur að fjármálum) - 14 / 20
Introduction to Banking (inngangur að bankafræðum) - 11 / 20
ABC (bandarísk saga) - 17 / 20

mánudagur, 26. janúar 2009

Niðurstöður prófa

Fyrsta einkunnin er komin í ljós og er hún úr hagfræði. Niðurstöðurnar voru mjög slæmar yfir alla deildina og kom í ljós að ég deildi hæstu einkunn með einum öðrum, 16 af 20.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Lundúnaferðin

Á fimmtudaginn var fór ég í heimsókn til Freyju Sjafnar ásamt: Ása, Ásgeiri, Elvari, Jóhanni, Söndru, Tinnu og Þóroddi. Fyrir voru í íbúðinni og þrír, svo að augljóst var að verulega yrði þröngt á þingi. Reyndist íbúðin þó rúma okkur vel, þannig að ég held að enginn geti kvartað yfir plássleysi.

Tóku Freyja og Sandra á móti mér á King's Cross St. Pancras lestarstöðinni um hálfellefuleytið þá um kvöldið. Snemma næsta dag komu strákarnir og fórum við í bæinn. Við gengum framhjá þinghúsinu, Westminster Abbey, London Eye, Buckinghamhöll og enduðum á Oxford stræti.

Laugardagurinn bar í för með sér heldur óvænta stefnubreytingu, en í henni fólst að ég dróst á leik Chelsea og Ipswich í bikarkeppninni. Það kostaði um 15 þúsund kr. Til að verja þessi fjárútlát verð ég að segja að ég keypti nánast ekkert annað, þá fyrir utan mat.

Ég komst að lokum heim eftir ófyrirséða seinkunn á brottför minni, heill á húfi. Heildarkostnaður ferðarinnar nemur um 40 þúsund kr.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Fyrsti skóladagurinn

Hann var ekki beint strembinn, fyrsti skóladagurinn að loknum jólaprófum. Fyrsti tíminn, kl. 13:45 var þó krefjandi þjóðhagfræðitími og að honum loknum tók við fjármálastærðfræði á frönsku. Ég komst að því að ég hafði þegar farið yfir mestanpart hennar í Corporate Finance, svo að efnið var fremur létt yfirlestrar. Ég held nú samt að ég muni sækja þessa tíma til að bæta frönskuna, og sjá hvort ég höndli þetta ekki.

---
Norðmaðurinn frá írska kvöldinu sagði mér að einhver pláss væru að losna í norska og sænska kampusinum í Cité Universitaire. Ég ætla að velta þessu fyrir mér á næstu dögum.

Evrópsk menning

Á laugardaginn var byrjaði ég í tíma sem heitir Evrópsk menning og er heilla fimm eininga kúrs hér við skólann. Í honum er ekki setið í kennslustofum og hlustað á þunga fyrirlestra um leikrit, list eða eitthvað þvíumlíkt. Heldur er ferðast um París og listina leitað uppi.

Byrjuðum við á því að fara í bátsferð um Signu, þvert í gegnum París. Sem var lítið betra en ágætt, enda leiðsögumaðurinn eftir því. Svo þarf siglingin að þola heldur ósanngjarnan samanburð við mína títtnefndu Kanalrundtfarta um sundin í Kaupmannahöfn. Fátt gæti staðið slíka viðlíkingu.

Að bátsferð lokinni fórum við langan túr um borgina. Enduðum við á írskri krá þar sem okkur var boðið upp á kássu og kynntist ég Svíum og Norðmönnum. Lengi vel hélt ég að Svíar væru skemmtilegasta og besta fólk í heimi, en Norðmenn hafa nú skotið þeim ref fyrir rass.

Dagur tvö hófst á ferð okkar í Tour Montparnasse, sem er næsthæsta bygging Frakklands á eftir Eiffel turninum, án þess þó að ég þori að sverja það. 210 metra hár og 59 hæðir.

Við komum þarna á besta tíma um kl. rúmlega fimm og fengum því tækifæri til að sjá borgina í ljósaskiptum. Hreint út sagt magnað útsýni af efstu hæðinni. Brandarinn er að þetta sé fallegasta útsýnið í París - einmitt vegna þess að þú sérð ekki bygginguna sjálfa. Það er skemmtilegt að horfa niður og sjá borgarskipulagið; hvernig húsum hefur verið troðið einsog hægt er innan byggingasvæðanna. Að ofan sést skipulagið sem kaósin niðri felur.

Það er síðan hægt að fara upp á turninn, en þar er vægast sagt einsog franska útibúið af Kjalarnesi! Veðrahelvítið var svo að flestir voru hræddir um að fjúka fram af. Ég stoppaði stutt og flýtti mér í skjól.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Nýtt upphaf

Í dag hófst skólinn formlega á ný eftir eitt það allra tilgangslausasta frí sem ég hef þurft að þola. Þá er ég ekki að tala um jólafríið, heldur það frí sem stóð frá 7. janúar til 15. janúars. Þann 6. sl. höfðum við nefnilega þurft að fljúga hingað út til þess að mæta í síðasta „jólaprófið“, en eftir það stóðu allir uppi með frjálsar hendur. Eftir hrikalega stutt en laggott jólafrí þótti mönnum víst nauðsynlegt að fólk skyldi eiga annað frí, en þá á meginlandinu í Parísarborg.

Dagurinn í dag samanstóð af tveggja tíma ræðu, kynningu á breytingum sem hafa orðið milli anna. Sú nýbreytni er tilkomin að fólki er ekki lengur frjálst að velja sín fög að öllu leyti, sem áður. Enda var það slíkt sem ég gagnrýndi harðlega, bæði opinberlega og í bakherbergjum. Faktíst hefði ég getað, samkvæmt gamla kerfinu, forðast alla stærfræði, svo dæmi sé tekið, eða hugsanlega öll viðskiptafög! Hvers lagst viðskipta-diplóma er það sem leyfir svoleiðis? Það var þó ekki lengi að bæta úr því.

Það var ánægjulegt að sjá til sólar. Ég hafði ekki séð til hennar í nokkra daga. Sólarhringurinn var orðinn þannig! Ég ákvað af því tilefni að fara út í kuldann og skokka einhvern örsmáan hring. Mér varð þó oftar en ekki stansað við hin ýmsu kennileiti og götuheiti sem ég þekkti úr Minnisbók, bókinni hans Sigurðar Pálssonar, sem ég var að lesa. Skemmtilegt nok fannst mér. Bókin er um námsár hans í París frá '68 og framvegis. Eitt sem ég þóttist ekki geta séð úr bókinni, en saknaði mikið, var að eiga þá vonarglætu um að finna ódýrt kaffihús. Ég fann samt ókeypis safn um sögu Parísar. Staldraði þó stutt við.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Ófremdarástand og óeirðir á Íslandi

Ég komst í það að horfa á CNN um daginn og viti menn var ekki vídjó frá einhverjum mótmælunum heima á Íslandi, eða óeirðum, réttara sagt. Það leit út einsog ástandið væri litlu skárra en á Grikklandi, og það á CNN!

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Óvæntur gestur

Mér brá heldur betur í brún þegar ég las síðasta tölvupóstinn frá Soffíu, stelpu sem var í tungumálaskólanum í Bordeaux með mér. Hún tók sig til og keypti bara flugmiða - Stokkhólmur-París - og ætlar að koma í heimsókn í Maí. Reyndar hafði ég mörgum sinnum sagt við hana að hún ætti að koma, enda ekki löng leiðin - eða hitt þó heldur. En við hverju á maður að búast þegar maður slengir fram slíku tilboði? Ekki það að engin meining hafi fylgt því. Ég er bara hissa.

Þetta er reyndar hin fínasta og skemmtilegasta stelpa, svo að ég veit ekki hverju ég ætti að kvíða. En ég geri það nú samt.

Vegabréf, sendiráðið og Versalir

Dauðaleitin bar engan árangur, og eftir hana hef ég sannfært mig um að þessu blessaða vegabréfi hafi verið stolið. Til þess að fullvissa mig um að það færi á engan veg framhjá mér tók hvert og eitt sem ég á í þessarri íbúð, höndlaði það og grandskoðaði, og setti það á rúmið mitt. Að leit lokinni var rúmið ofhlaðið alls kyns hlutum og ég fór í síðasta inspeksjón-leiðangur - en fann ekkert. Rannsókn lokið; niðurstaða: Vegabréfinu var rænt.

Vegna Lundúnaferðarinnar varð ég því að fara í háaloft Klébergötu 8, sem er sendiráð íslenska lýðveldisins í París og ræða við starfsfólkið þar. Skipulagði ég sendiráðaleiðangur með skólasystur minni sem þurfti að láta endurnýja vegabréfið sitt og byrjuðum við á því að fara í sendiráð hennar; hið breska.

Við vorum komin einhverjum mínútum fyrir opnun, en þá var hafði þegar myndast röð við innganginn. Loksins var okkur hleypt inn og einkenndist þetta allt af bið, og enn meiri bið, enda átti þetta eftir að taka okkur um tvo klukkutíma. Þetta var þó tæpast leiðinlegt, því á biðstofunni gátum við heyrt öll þau erindi sem fólk bar upp, sem var stundum hin mesta skemmtun. Eða betra orð væri etv. sjokkerandi. Ég er að tala um skemmtun á svipaðan hátt og þegar fólk hópast í kringum slagsmál. Einn maður hafði tapað vegabréfinu og átti bókað flug til Bretlands, en ekkert var hægt að gera. Hann þurfti, einsog aðrir, að bíða þessa sjö til tíu daga. Ekki leist mér á blikuna, því ég var í nákvæmlega sömu aðstöðu.

Eftir þetta náðum við á sprettinum að komast í íslenska sendiráðið korter í lokun. Þar mætti mér hin indælasta kona sem fannst þetta vera hið minnsta mál. Neyðarpassann fékk ég og borgaði fyrir €14, á meðan breska stelpan þurfti að borga €137. Þar að auki tók heildarprósessið ekki nema fimmtán mínútur! Það er því eitt að vera Íslendingur og annað að vera Breti.

Á sunnudaginn fór ég ásamt stráki frá Pakistan og stelpu frá Kanada til Versala í heimsókn til skólasystur okkar sem er frá Brasilíu. Þar skoðuðum við höllina að utan, í mitt annað sinni, sem var þó allt önnur upplifun en hin fyrri. Ég veit ekki á hvaða efnum ég var þá, því mér þótti höllin á flestan hátt tilkomulítil. Varð þetta hinn besti dagur og eru í framhaldi þreifingar um að fara til Disneylands. Ég veit ekki alveg hvort ég nenni.

sunnudagur, 11. janúar 2009

London kallar

Oft hefur borist til tals hjá okkur, nokkrum úr bekknum, að heimsækja Freyju okkar, sem er að læra fatahönnun í Bretlandi. Alltaf hef ég tekið vel í það og frekar ýtt á eftir því En heldur betur tók ég vel í það þegar þetta kom upp nú í vikunni, þar sem að ég er staddur í París og þarf ekki að borga hið ógurmikla fluggjald frá Íslandi. Nú er svo ákveðið að við munum öll hittast þann 23. janúar heima hjá Freyju í London. Ég fer reyndar einum degi fyrr.

Ferðaáætlunin er eftirfarandi:

París - London: 22. janúar, kl. 20:50
London - París: 25. janúar, kl. 7:52

En þá hefst önnur vitleysan! Hvar er passinn? Fyrr í haust týndi ég gamla vegabréfinu, pantaði mér nýtt, borgaði 10 þúsund kr. fyrir, fann svo gamla passann, týndi nýja og nú stend ég í dag með ógilt vegabréf, 10 þúsund kr. fátækari - og ellefu dagar í brottför. Ég mun gera dauðaleit á morgun, og ef ekkert finnst, halda í sendiráðið og fá útgefið neyðarvegabréf.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Próf og prófraunir

Í kvöld tróð ég mér inn á eina stelpu sem er með mér í skólanum til að læra undir prófið sem er á morgun í Sögu, því ég læri miklu betur með öðrum. Það gekk mjög vel þangað til að við áttuðum okkur á því að lokaprófið gilti bara 25% af lokaeinkunninni. Fátt annað hefði dregið úr mér allan eins þrótt! Og fórum við því að tala um hvað við skyldum gera í allan þennan tíma sem við hefðum þessa önnina, sem er um fimm mánuðir, en ekki þrír einsog hin fyrri.

En áður en við hættum að læra, sagði hún reyndar svolítið sem ég pældi ekki of mikið í fyrr en eftirá: Allt í einu skellir hún uppúr og ég spyr hvað sé. Þá ræskir hún sig og segist hafa verið að lesa grein í skólablaði í Kanada sem segir það að til þess að geta lært vel og ítarlega undir próf, þá væri gagnlegt í því markmiði að sofa hjá, því það eyddi svo mikilli spennu og opnaði fólk fyrir lærdómi. Ég tók undir það, og sagði að það hlyti að vera, en svo lítið um það meir. Var þetta tilboð um að gera hitt? Og ég bara svo grænn og glórulaus? Ég bara spyr.

Eftir að lærdómsþrótturinn hvarf fórum við að ræða, einsog ég sagði áður, um hvað við ættum að gera þessa mánuði. Því ekki bara er önnin lengri um tvo mánuði, heldur er stórum og miklum fríum dreift þar um, samtals um tæpur mánuður myndi ég halda! Hvað er vitið í því? Ég vil taka þetta í einum rykk, skiljanlega, í staðinn fyrir allt þetta hangs. Menningarmunur Íslendinga og Frakka spilar þar stóra rullu held ég.

Minntist ég á samtal sem ég átti við Jón Davíð og fjölskyldu þar sem þau spurðu mig alls kyns spurningar um hvort ég hefði verið að stunda menningarlíf Frakklands; leikhúsin; söfnin; tónlistarlífið o.fl. En svörin voru öll skömmustulega: Nei! Ég bar við nísku og sparsemi, en er það satt? Í þessu ljósi settum við okkur fjöldann allan af markmiðum um menningarferðir um gjörvalla París og víðar, sem við ætlum líka að troða upp á valda bekkjarfélaga.

„Heimkoma“, og þar fram eftir götunum

Eftir heldur tilfinningaþrungna brottför, þótt lítið það hafi borist á yfirborðið, þá hefur gleðin tekið við á ný. Ég hélt út þann 5. sl. í ógurmikilli þoku, leist því ekkert á, og í flugstöðina kominn fór ég beint í 66°Norður og ætlaði mér að kaupa eitthvað. Mér til mikillar ánægju sá ég að úlpan sem ég hafði þráð í u.þ.b. tæpar tvær vikur var á rúmum tíu þúsund kr. lægra verði en í bænum! Ekki nema 44 þúsund. Ég sem hélt að þetta kostaði orðið nákvæmlega sama, hvort heldur í bænum eða í fríhöfn.

Því miður var stærðin mín ekki til. Afgreiðslustúlkurnar voru sumar samt að reyna að telja mér trú um að þetta gengi alveg, en ég hélt ekki. Ég spurði líka fólk í kring, sem var mér sammála. Ég náði þó að kaupa mér eitthvað annað miklu ódýrara.

Í flugvélina var ég settur innst inn í þvöguna sem mér finnst alltaf myndast afturí, með barnafólkinu og þvíum líku. Og meira segja var kona við hliðina á mér sem fyrirfram vildi biðjast afsökunar á því að hún skyldi verða ælandi flugið. Ekki leist mér á blikuna! Flugfreyjan sem var að sjá um okkur, lýðinn aftast í vélinni, brá sér þó á tal við mig og fór að spurja út í það sem ég hafði keypt í 66°Norður, og dást að því. Ég sagði henni sögu mína af úlpunni og verðinu og fannst henni það hóflega merkilegt, en nógu merkilegt að hún hafði ágætlega gaman af.

Loks er allt var orðið troðið fór hún að týna örfáa til að setjast í fremri sætaraðirnar, og þá að sjálfsögðu tók hún mig. Þetta reyndist því alveg stórkostlegt flug; sætin jöfnuðust alveg á við Saga, enda nóg plássið og eitt sæti laust í miðjunni. Enginn matur samt, en ég var með nesti. Og reyndar fékk fúllynda flugfreyju í staðinn. En hvað sættir maður sig ekki við?

Hún var fljót að koma þreytan frá svefnleysinu nóttinni áður, þó ég hefði ekkert viljað sleppa því. Ég skemmti mér ágætlega það kvöldið, en ég var vel gagnrýndur fyrir þessa þreytu af öðrum ferðalöngum sem höfðu lagst í margfalt lengri ferðalög til að enda hér í París, þá sérstaklega eftir að ég var inntur eftir tímamismuninum og hvort flugið hafi verið óþægilegt.