fimmtudagur, 2. október 2008

Skólinn


Stóri munurinn frá menntaskóla til háskóla er sá að þú stendur frekar á eigin fótum. Þetta er að sjálfsögðu. Þetta var manni sagt við umskiptin úr grunnskóla og þetta var svo aftur sagt við útskrift úr menntaskóla. En það sem mér finnst vera umsvifameira er að í háskóla þarftu alltaf að vera á nálunum. Þú þarft að taka þátt í hverjum tíma og það er oft stór partur af lokaeinkunn. Því er engin örugg 10 þegar þú lærir bara fyrir lokapróf. Og fyrir seinhugsandi fólk einsog mig er þetta enn verra. Þú þarft stöðugt að búa þig undir og spyrja sjálfan þig: Hver væri dæmigerð spurning um þetta viðfangsefni og undirbúa svo svar við henni.

Uppsetningin á skólanum sjálfum er gríðarlega flókin. Þetta er ekki bara einsog HÍ eða HR; sjálfseignarstofnun, með sín markmið og framtíðarplön. Þetta er einkaskóli sem er eign annars skóla. Ég er í Paris International Business School (PIBS) sem er eign Groupe INSEEC, sem á síðan einhverja fleiri. Svo er skólinn minn með virkt samstarf við MBA Institute og INSEEC Business School. Það er ég reyndar ekki ánægður með. Mér finnst það ekki vera samstarf sem byggir upp PIBS, heldur þvert á móti. Þá er skólahúsnæðið er ekki gott. Það er dreift um mismunandi byggingar og því er ekki hægt að horfa á neinn einn punkt og segja „þetta er skólinn minn“. Það eru reyndar áætlanir um að flytja um mitt næsta ár.

Ég er hins vegar mjög ánægður með kennsluna á heildina litið. En það er eitt sem ég tek mjög greinilega eftir, ég nýt þess að vera í tímum með þeim kennurum sem eru bandarískir, en ekki hinum. Það er eitthvað ákveðið, ég veit ekki hvort að það sé almennt hjá Bandaríkjamönnum, en eitthvað ákveðið er það sem gerir þá að betri kennurum. Þeir eru áberandi vel undirbúnir fyrir hvern tíma og þeir nota frekar „leikræna“ tilburði. Og þá er ég reyndar að teygja orðið leikrænt, en þeir kunna að vekja áhuga á einhverju sem þyrfti ekkert endilega að vera það. En, hvað er ég þá að gera í Frakklandi?

Engin ummæli: