Þar sem lítið var að gera síðasta laugardag, þá ákvað ég að fara í göngutúr. Stuttan hálftímagöngutúr um miðbæinn. Klukkan sjö þá lagði ég af stað, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum missti ég allar mínar áttir. Ég ákvað að halda heim á leið og ganga í austurátt, en í raun gekk ég beina leið norður. Ég gekk svo lengi norður, án þess að sjá neinar vísbendingar um það, að það var ekki fyrr en ég var kominn að Sacré Ceur, einum nyrsta punkti Parísar, að ég áttaði mig á mínum hrakförum. Tók þá við um eins og hálftíma gangur heim.
Hér uppi er kort sem sýnir, cirka, þá leið sem ég gekk.
Einn kennarinn sem við erum með er engan veginn starfi sínu vaxinn. Hún kennir „Management Science“, sem útleggst einhvern veginn á íslensku sem stjórnunarfræði og hún hefur, kaldhæðnislega, enga stjórn á nemendunum.
Helmingurinn af nemendunum í hverjum tíma er uppbyggður af Frökkum. Þeir eru flestir óþroskaðari en við erlendu nemendurnir og eru talandi allan tímann upp í opið geðið á kennaranum. Það má vera vegna þess að flestir þeir frönsku koma úr frekar efnuðum fjölskyldum, hafa kannski fengið margt upp í hendurnar og hafa því etv. ekki þurft að þroskast jafn hratt og hinir. Ég veit það ekki.
En alla vega… Við erum fjögur saman sem höfðum setist í öftustu röðina og við erum einsog við erum vön, heldur fagmannleg og vinnum samviskusamlega, fylgjumst með og skiptumst kannski á einu og einu orði. En allan tímann, á meðan frönsku nemendurnir blöðruðu sín á milli einsog þeir ættu líf sitt að leysa, ef eitt orð fór frá okkur þá var tíminn stöðvaður og haldinn fyrirlestur um hvað við fjögur í öftustu röðinni værum sí og æ að niðurbrjóta allan vinnufrið! Svo þegar kom að því að svara einhverjum dæmum, þá að sjálfsögðu var því beint að okkur. Allan tímann var ég lagður í einelti af kennara mínum, ég sem er þægari og kurteisari en hver annar!

Engin ummæli:
Skrifa ummæli