Við borðuðum snarl við manngerðan foss, sem mér fannst reyndar frekar misheppnaður. Stuttu síðar héldum við tilbaka. Það sem mér fannst merkilegt var að allan þann tíma sem við hjóluðum um garðinn frá hjólaleigunni, að hjólaleigunni, hjóluðum við niður í mót. Við þurftum aldrei að strita og púla eða fara upp brekkur. Að því er ég kemst næst, þá á þetta ekki að vera mögulegt, svo að einhverjir ótrúlegir (en nytsamlegir) galdrar hafa greinilega verið viðhafðir við hönnun garðsins.
Á laugardaginn var fórum við Natalka, Kristína og vinkona hennar frá Noregi, Unni-Gabríella, í Disneyland. Það var eitt stórt ævintýri frá upphafi til enda. Unni hefur búið allt sitt líf í Noregi, en er upphaflega fædd í Chíle. Hún kynntist Kristínu í menntaskóla í Ósló. Það var hálfsérkennilegt hversu fljótt henni tókst að eiga áreynslulaus samtöl við okkur hin, bláókunnugt fólk. Það er sérstakur hæfileiki sem ég vildi gjarnan búa yfir.
Við fórum í langflest tækin, byrjuðum reyndar á því sem, að ég held, á að vera það skelfilegasta. Mér fannst það þó ekkert merkilegt. Kannski vegna þess að ég loka bara augunum og bíð þangað til ósköpin eru staðin yfir... og reyni jafnvel að hindra heila minn um að hugsa um að teinarnir munu losna.
Veðurspáin hafði verið slæm, sem ég var reyndar ánægður með. Því eðli málsins samkvæmt ættu færri að mæta þess vegna. En svo reyndist alls ekki. Veðrið var ekki með besta móti, en nógur var mannsskarinn. Stuttu eftir hádegi vorum við Kristína ein á Main Street í Disneylandi að bíða eftir hinum, og allt í einu byrjar hann að hella af himnum ofan. Við stöldrum ekki lengi við og drífum okkur inn í næstu búð. Þar fundum við rándýrar, skærgular regnslár sem kostuðu €8! Við keyptum þær og flýttum okkur út þangað sem að við áttum að hitta stelpurnar. Þær komu á endanum og við hreykin af okkar nýjustu fjárfestingum, en að sjálfsögðu, einsog hendi væri veifað, stytti upp og sólin byrjaði að skína.
(Myndir koma síðar)
